146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

umferðarlög.

307. mál
[20:37]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni einlægnina og heiðarleikann og ekki síst frumlegheitin; og einfaldlega fyrir það að svara spurningum mínum þótt ég hafi snúið hlutverkum við í andsvörum. Ég set ekki sömu tengingu á milli bílastæðagjalda og vegtolla í Reykjavík og vegtolla og þeirrar hugmyndar sem mér fannst hv. þingmaður vera að draga upp sem öll sneri á einhvern hátt að bílum. Ég er að horfa á áhrif sem gjaldtaka í hinum ýmsu myndum hefur á heilan atvinnuveg. Hv. þingmann skildi ég ekki öðruvísi en að hann teldi að heildarskoðun á því, heildaráhrifum ýmissa tillagna um gjaldtöku á heilan atvinnuveg, væri ekki af hinu góða, eða að við þyrftum ekki á henni að halda (PawB: Ekki nauðsynleg.) — Ekki nauðsynleg. Takk. Ég er ekki viss um að forsvarsmenn umrædds atvinnuvegar séu sammála því og ég er ekki viss um að ég sé sammála því. Ég held að einmitt það að horfa á einstaka framkvæmd og hverju hún skilar út af fyrir sig, hvort hún sé heppileg, gangi upp, hvort hún sé sniðug, hvernig það sé, án þess að meta heildaráhrifin af öðrum aðgerðum, sem ýmist eru í bígerð eða hugmynd eða boðaðar um — ég held að það sé ekki góð stjórnsýsla. Ég held að atvinnuvegir landsins þurfi að búa við að vita nokkurn veginn heildaráhrif af slíkum aðgerðum með einhverjum smáfyrirvara. Síðan getur vel verið að allar aðgerðirnar séu skynsamlegar og að farið verði í þær. En ég tel ekki skynsamlegt að meta ekki og vega áhrifin sem þetta hefur. Það kannski skýrir af hverju fyrirhuguð hækkun á virðisaukaskatti kemur mörgum svona mikið á óvart, að menn hafi ekki reynt að meta heildaráhrifin. Það setur kannski meiri vigt (Forseti hringir.) í orð Samtaka ferðaþjónustunnar þar um, að slíka greiningu skorti, og sérstaklega hvaða áhrif það hafi á landsbyggðina.