146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

umferðarlög.

307. mál
[20:40]
Horfa

Daníel E. Arnarsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. framsögumanni fyrir þetta nefndarálit og einnig fyrir minnihlutaálitið. Við fyrstu sýn virðist málið ágætis réttlætismál, sérstaklega ef við tölum um sveitarfélögin sem hafa setið eftir þegar kemur að fjármagni vegna ferðamannastaða. Í raun er þetta eðlilegt til að skapa tekjur til sveitarfélaga svo að þau geti með góðu móti byggt upp og tekið á móti ferðamönnum.

En ég spyr mig hvort með þessari aðgerð sé nóg að gert og hvort þessi leið sé sú eina rétta. Fyrir mér er þetta skammgóður vermir og alls ekki nægilega stór aðgerð til að standa undir þeim kostnaði sem fjölgun ferðamanna hefur í för með sér.

Ég er með nokkrar spurningar, brýningar og hugleiðingar, aðallega um hvernig þessari útfærslu verður háttað. Í fyrsta lagi spyr ég mig að því hvernig hið opinbera hefur hugsað sér þessa gjaldtöku. Munum við sjá ný bílastæði við Seljalandsfoss eða Jökulsárlón eða Gullfoss? Fer gjaldið aðeins í gegnum þær bifreiðar sem leggja til lengri tíma? Er hægt að greiða í skammtíma- eða langtímastæði? Hvað þá með rútur? Munu þær greiða eitt gjald eða fleiri? 80 manna rútur, greiða þær hærri gjöld en litlar rútur? Á að malbika ný stæði fyrir þessa nýju tekjuöflun? Hvernig samrýmist það núverandi skipulagi margra sveitarfélaga?

Hver er það sem fer í framkvæmdirnar í upphafi? Eru það sveitarfélögin sjálf og þurfa þau að greiða upp kostnaðinn úr eigin vasa? Geta minni sveitarfélög lent í því að tapa hreinlega á aðgerðinni til lengri tíma litið? Eða ætlar ríkið þá að koma til og fjárfesta í þessum bílastæðum með sveitarfélögunum? Ég spyr mig, ég veit það ekki.

Ég hef einnig spurningar um hvernig gjaldtakan fer fram. Er gert ráð fyrir miklum mannafla? Á að rukka fyrir hvern bíl eða ætlum við að setja upp stöðumæla fyrir framan þessa fjölförnu og oft viðkvæmu ferðamannastaði? Ég hef einmitt nokkrar áhyggjur af þessari nýju tekjulind sem bílastæðin eiga að vera. Svo virðist sem engin kostnaðargreining á þessum stæðum liggi fyrir. Við vitum heldur ekki hve mikið hvert stæði gefur af sér og þá hve mörg ný stæði þarf að malbika. Er því aðgerðin arðbær fyrir sveitarfélögin til lengri tíma? Hve lengi tekur eitt bílastæði að ná jöfnu og byrja að skila tekjum til sveitarfélagsins? Liggur það fyrir? Það er ekkert sérstaklega traustvekjandi fyrir sveitarfélögin að fara í slíkar framkvæmdir sem þau vita ekki í raun hvort gefa eitthvað af sér.

Ég vona að þetta frumvarp geri það ekki að verkum að ákveðin sveitarfélög ætli að hlaupa fram og skuldsetja sig til að malbika bílastæði sem borga sig svo ekki fyrr en seint og um síðir. Þá spyr maður sig hvort ríkið ætli að hlaupa undir bagga.

Þessum spurningum er öllum ósvarað. Ég veit að þetta er bara einn þáttur í þessari gjaldtöku, ég geri mér grein fyrir því. En margar spurningar liggja samt fyrir.

Í frumvarpinu segir að gjaldinu sé gert að standa straum af byggingarkostnaði, viðhaldi, rekstri, launum, sem tengjast bílastæðunum sjálfum, og svo einnig kostnaði sem fellur til vegna reksturs og viðhalds salernisaðstöðu, viðhaldi göngustíga og tengingum við önnur samgöngumannvirki. Þá spyr ég mig: Hversu hátt á þetta gjald að vera miðað við alla þessa þjónustu sem það á að greiða fyrir? Teljum við ekki sniðugra að leita frekar annarra leiða við tekjuöflun til að standa straum af þessari þjónustu við fjölfarna staði? Til dæmis með hækkun gistináttagjalds eða sanngjörnu komugjaldi?

Einnig samráð við sveitarfélögin. Ég velti fyrir mér hvort það hafi verið gott og mikið. Ég tel það forgangsmál að við séum í góðu samráði við sveitarfélögin sjálf sem munu samkvæmt frumvarpinu sjá um alla útfærsluna sjálf og ein. Ég tel nauðsynlegt að útfærslan verði með svipuðum eða sama hætti í hverju sveitarfélagi og samráð og samtal eru nauðsynleg til þess. Einn stór þáttur sem ekki er komið inn á í frumvarpinu eru umhverfissjónarmið. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að allir ferðist um landið á bílum. Eins og við flest vitum þurfa bílar mikið pláss, þeir þurfa vegi. Hvernig samræmist það viðkvæmum ferðamannastöðum að malbika bílastæði til að ná í tekjur? Viðkvæmir staðir ráða hreinlega ekki við malbikuð bílastæði. Hefur það verið skoðað eða er gert ráð fyrir að bílastæði megi hreinlega malbika hvar sem er?

Í frumvarpinu er einnig verið að festa einkabílinn í sessi, finnst mér, sem hinn eina fararskjóta. Ég tel að þetta verði til þess að letja uppbyggingu almannasamgangna. Þær eru þá ekki jafn arðbærar fyrir sveitarfélögin og einkabíllinn. Mun það þá ekki verða keppikefli sveitarfélaga að fá sem flesta bíla til að keyra inn á svæðið og leggja, til skamms eða langs tíma eftir því hvernig þau ætla að útfæra þetta? Við því eru engin svör. Einnig á aðgangur að náttúruauðlindum að vera óheftur. Þetta bílastæðagjald má ekki vera aðgangsmiði inn á náttúruperlur en ég óttast að óbreytt frumvarp opni einmitt á það og þar af leiðandi er búið að opna á almenna gjaldtöku í formi bílastæðagjalda.

Svo eru það aðgangsstýringarsjónarmiðin. Við fyrri umræðu um frumvarpið bar aðgangsstýringu á góma, þetta væri einn liður í því. En það flækir málið enn meira því að sú aðgerð er mun flóknari og þarf enn meira samráð, þá á forsendum aðgangsstýringar. Ég sé þessa aðgerð, aðgangsstýringu, ekki fyrir mér í frumvarpinu og vona innilega að það sé ekki hugsað til þess. En maður spyr sig hvort fullt bílastæði sé þá tappi á fjölda ferðamanna og þeir þurfi því frá að hverfa.

Það er hins vegar jákvætt að ríkisvaldið opni möguleika fyrir sveitarfélög að afla tekna. En ég vil ekki að þetta mál verði ákveðin fjarvistarsönnun þegar kemur að því að ríkisstjórnin myndi heildstæða og góða stefnu til framtíðar þegar kemur að uppbyggingu ferðamannastaða og ákveðnum fjöldatakmörkunum á viðkvæmum stöðum. Ég vil heldur ekki að þessi aðgerð verði til þess að ríkisstjórninni þyki nóg um og láti þar við sitja því að eins og við vitum þurfa mun meiri tekjur að renna til þeirra staða og til þeirra sem byggja upp ferðamannastaði og áningarstaði tengda þeim.

Sú fjölgun ferðamanna sem hefur átt sér stað hér á landi síðustu ár hefur opnað á margvísleg tækifæri og skapað þúsundum atvinnu. Það sem upp á vantar er þessi heildstæða stefna ríkisvaldsins. Gjaldtökuna verður nefnilega að hugsa heildstætt en ekki í litlum lausnum og þessum plástrum sem hv. þingmaður kom inn á rétt áðan. Ríkisstjórnin ætti þess í stað að skoða leiðir eins og hækkun gistináttagjalds og að hluti þeirra renni til sveitarfélaga. Þessi leið hefur reynst vel í þéttbýlum víða um álfuna. Því ber að huga sérstaklega að minni sveitarfélögum, ef við förum í þessa aðgerð, þegar kemur að útdeilingu þess því að þau sitja oft eftir. Þrátt fyrir að ferðamenn fari um litlu sveitarfélögin þýðir það ekki endilega að þau gisti í þeim sveitarfélögum. Þar af leiðandi verða þá þau sveitarfélög af gjaldinu, því að gistináttagjald er, eins og nafnið gefur til kynna, bundið því að fólk gisti og greiði þar með til sveitarfélaganna, eða eins og staðan er í dag beint til ríkisins. Ég tel að þessu eigi að breyta.

Fyrir stuttu, í dag eða í gær, birtist góð fréttaskýring um gistináttagjald víða um heim á vefnum turisti.is. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Í ársbyrjun 2012 var lagður á gistináttaskattur hér á landi sem nemur 100 krónur á hverja gistieiningu og skilaði sú skattheimta 390 milljónum í fyrra samkvæmt fjáraukalögum fyrir 2016. Hefði gistináttaskatturinn hins vegar verið innheimtur á hvern hótelgest, líkt og tíðkast víða annars staðar, þá hefðu tekjurnar af gistináttaskatti getað orðið miklu hærri. Ef gjaldheimtan yrði með sama sniði og í París þá hefði hún skilað 1,3 milljörðum auk 150 milljóna úr óskráðri gistingu eins og Airbnb. Í Róm eru ferðamenn rukkaðir mun meira en gengur og gerist í Evrópu og ef fordæmi Rómarbúa yrði fylgt hefðu tekjur íslenska ríkisins af gistináttaskatti verið 3,9 milljarðar í fyrra.“

Þetta megum við endilega hafa á bak við eyrað.

Mig langar einnig að minnast á komugjöld. Samkvæmt svari hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur kemur fram að miðað við fjölda flugfarþega árið 2015 hefðu tekjur af 1.500 kr. komugjaldi numið rúmum 2,5 milljörðum. Komugjald hefði numið rúmum 3,4 milljörðum árið 2016 og miðað við áætlanir Isavia, um farþegafjölda yfirstandandi árs, yrðu tekjur af komugjaldi um 4,2 milljarðar. Þessum fjármunum yrði vel varið í grunnstoðir samfélagsins og alvöruuppbyggingu og heildstæðri á sviði ferðaþjónustunnar.

Við Vinstri græn höfum lagt til að kerfið í heild sinni verði tekið til endurskoðunar með gistináttagjald og komugjöld að leiðarljósi til þess að sveitarfélög og ríki geti byggt upp öfluga stoð og tel ég að við getum tekið á móti þeim sem kjósa að koma hingað og verið stolt af því og gert það með reisn. Eins og segir í stefnu VG í ferðamálum eru tekjur miklar af ferðaþjónustunni en skila sér ekki nægilega vel til hins opinbera. Tekjuöflunin á að vera í gegnum markaða tekjustofna en ekki litla plástra hingað og þangað, því að það er ekki vænlegt til árangurs.

Að því sögðu tel ég að fara þurfi í meiri greiningarvinnu á þessu frumvarpi, hafa meira samráð við þá aðila sem koma að málinu og útfærsla málsins þarf að vera skýrari.