146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

umferðarlög.

307. mál
[20:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Pawel Bartoszek) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir prýðilega ræðu. Mig langar að koma inn á nokkra hluti sem hann nefndi í ræðu sinni. Eins og ég nefndi í upphafi þessa máls fór ég á Þingvelli og lagði í stæði. Það kostaði 500 kr., svo við fáum einhverja hugmynd um þá upphæð gjalds sem um er að ræða. Það var fyrir heilan dag. En auðvitað geta menn útfært þetta á margan hátt.

Í öðru lagi nefndi þingmaðurinn, eða skilja mátti orð hans þannig, að ekki hefði verið haft nægilegt samráð. Þá vil ég benda á að þetta frumvarp var vissulega sent til umsagnar til allra sveitarfélaga á landinu. Þau voru flest bara himinlifandi með þetta, svo við orðum þetta með einhverjum hætti. Allar umsagnir sem bárust frá sveitarfélögum voru upp til hópa mjög jákvæðar og bæði einstaka sveitarfélög og landshlutasamtök sem og heildarsamtök lögðu mikla áherslu á að málið færi í gegn. Einu athugasemdirnar sem bárust voru þess efnis að það ætti aðeins að gera gjaldtökuna sem slíka ódýrari.

En í þriðja lagi, og gaman væri að heyra viðbrögð hv. þingmanns við því vegna þess að hann nefndi sérstaklega einkabílinn. Ég skal játa að ég er mikill áhugamaður um getu fólks til að ferðast án þess að vera á einkabíl. Ég er einn af stofnendum Samtaka um bíllausan lífsstíl. Þetta mál er mér mjög hugleikið. Og eitt af því sem ég veit að hefur áhrif á hvort fólk velur að ferðast með einkabíl eða ekki, og það er þekkt, er nægt framboð ókeypis bílastæða á stað A og B. Ef nóg er af ókeypis bílastæðum skiptir ekki máli hve löng vegalengdin er, fólk fer á bíl. Ef ekki er nóg af ókeypis bílastæðum beggja vegna fer fólk ekki á bíl eða það er síður líklegt til að gera það. Niðurstaða mín af því er að þetta ætti alls ekki að kynda undir einkabílistann heldur þvert á móti ýta undir að fólk fari leiðar sinnar á einhvern annan og hugsanlega umhverfisvænni máta.