146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

umferðarlög.

307. mál
[20:56]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér breytingu á umferðarlögum varðandi heimild sveitarfélaga til þess að rukka fyrir bílastæðagjöld utan þéttbýlis. Ég get að mörgu leyti tekið undir það að mikil þörf sé fyrir að bílastæði séu vítt og breitt um landið vegna hins mikla, aukna ferðamannafjölda sem fer um landið. Þörfin er til staðar. Það sem ég hef áhyggjur af og gagnrýni er að ekki liggi fyrir heildstæð stefna. Þörf er á greiningu á heildstæðri stefnu í þessum stærsta atvinnuvegi þjóðarinnar. Það finnst mér að stjórnvöld hafi vanrækt og hafi ekki komið sér niður á niðurstöðu um hvernig menn sjá fyrir sér að aflað verði tekna til innviðauppbyggingar og eins í sambandi við þá þjónustu sem sveitarfélög ætla að standa fyrir varðandi bílastæði, salernisaðstöðu og uppbyggingu í kringum ferðamannastaði. Menn hafa verið að henda þessu á milli sín eins og heitri kartöflu allt of lengi.

Árið 2011 var samþykkt að setja á laggirnar Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og að innheimta gistináttagjald, það var gert í fyrsta skipti árið 2012. Sá sjóður hefur ekki verið það burðugur að hann hafi risið undir nafni. Eins og við þekkjum var gistináttagjald innheimt og er enn. Mig minnir að núna um áramótin hafi verið byrjað að rukka inn 300 kr. í gistináttagjald, en það var 100 kr. til síðustu áramóta. Enn sem komið er hafa sveitarfélögin ekki fengið neinar tekjur af þessum gífurlega aukna fjölda ferðamanna. Það er ekkert skrýtið að sveitarfélögin lýsi yfir ánægju sinni að fá nú loksins einhverja tekjumöguleika til að byggja upp aðstöðu. Ég get alveg skilið að þau séu ánægð með að fá möguleika til að innheimta bílastæðagjöld. En auðvitað ættum við að vera fyrir löngu búin að koma okkur niður á hvernig við getum innheimt tekjur af auknum ferðamannafjölda til þess að byggja upp innviði í landinu.

Við Vinstri græn höfum talað fyrir blandaðri leið komugjalda og gistináttagjalda, en ekki hefur enn náðst samstaða um það í þinginu. Ég tel að komugjöld séu miklu vænlegri. Miðað við þær tölur sem verið er að tala um gætu tekjur af komugjaldi þetta árið verið um 4 milljarðar. Eins og fram kemur í fjármálaáætlun er ekki reiknað með meiri tekjum árið 2019 en um 4 milljörðum af hækkun á virðisaukaskatti og lækkun aftur niður í 2,5%. Það eru þær tekjur sem menn reikna með miðað við þá miklu óánægju sem fram hefur komið hjá ferðaþjónustunni, að allt of bratt sé farið af stað og engin greining liggi fyrir á áhrifum á landsvæði og mismunandi greinar innan ferðaþjónustunnar, þær greinar sem ekki eru komnar á þann stað sem risarnir í ferðaþjónustunni hafa heilsársatvinnu og gífurlegar tekjur af og þenslu í greininni. Ferðaþjónusta víða um landið er rétt að byrja að byggjast upp í heilsársferðaþjónustu eða hefur nú einhverja möguleika til þess, þannig að hækkun á virðisaukaskatti hefur farið illa í greinina. Menn telja að um þetta hafi ekki verið neitt samráð eða gerðar greiningar eða annað til að byggja á til að fara fram með slíkar hækkanir sem sýna ekki fram á að gefi meira þegar upp er staðið nema einhverja 4 milljarða.

Ég hef áhyggjur af því að umgjörðin um bílastæðagjaldið sé allt of óskýr. Á hvert og eitt sveitarfélag að ráða gjaldskránni? Á það bara að vera undir hverju og einu sveitarfélagi komið að ákvarða hver gjaldtakan verður? Mér finnst það ekki gott ef það er mismunur á bílastæðagjöldum vítt og breitt um landið. Það er svo margt sem mér finnst að skýra hefði mátt miklu betur í þessu máli. Gefst íbúum hér kannski kostur á því að kaupa árskort í bílastæði? Er það möguleiki? Menn þekkja að það er oft ýmislegt í boði varðandi t.d. tjaldstæði, svo eitthvað sé nefnt, sem sveitarfélög eru með á sínum vegum, einkaaðilar eru líka með tjaldstæði á sínum vegum.

Ýmislegt svona finnst mér skipta máli þó að hér hafi verið nefnt að á Þingvöllum sé verið að rukka 500 kr. yfir daginn á bílastæði, sem telst ekki há upphæð. En þá er algjörlega óljóst hver gjaldtakan verður og hvort sveitarfélög telji að það verði einhver gjaldstofn til framtíðar sem eigi að standa undir annarri uppbyggingu en bara bílastæðauppbyggingu, uppbyggingu salernisaðstöðu og göngustíga og tengingu við önnur samgöngumannvirki. Hvað þýðir það? Það er margt þarna sem mér finnst að skýra hefði mátt miklu betur.

Svo finnst mér líka óljóst varðandi sveitarfélög sem ætla að ráðast í byggingu bílastæða. Eiga þau þá að leggja út fyrir fjárfestingunni og afla síðan tekna af bílastæðagjöldum til langs tíma? Eða hafa þau möguleika á að sækja um í uppbyggingarsjóði innviða, sem er undir landsáætlun, eða Framkvæmdasjóð ferðamannastaða til þess að fara út í þessa fjárfestingu? Sveitarfélög eru mjög mismunandi á vegi stödd, þar eru oftar en ekki staðir sem mikil ásókn er í, en samt er fjöldinn sem fer þar um ekki það mikill að fjárfesting eins og að byggja upp bílastæði borgar sig ekki upp strax, það tekur kannski 10, 15 ár, nema menn fari að rukka svo hátt gjald að það hraði niðurgreiðslu á kostnaði við bílastæði. Mér finnst það líka vera spurning vegna þess að hagur sveitarfélaga er bara mjög mismunandi. Efnaminni sveitarfélög geta verið með marga staði sem byggja þarf upp og það þarf að vera góð aðstaða og góð bílastæði til staðar. En þá er þessari spurningu ósvarað: Geta þau sótt um í þá sjóði sem ég nefndi hér áðan til þess að fara út í þessar framkvæmdir?

Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé spurði: Hvað með þau sveitarfélög sem eru þegar með bílastæði í dag? Rukka þau lægra gjald? Eða hvernig er gjaldtöku háttað miðað við þau sveitarfélög sem fara í nýframkvæmdir og byggja ný bílastæði?

Þetta eru allt spurningar sem mér finnst að þurfi að svara, og eins þeirri hvort við heftum almannarétt og frjálsa för almennings, að ekki sé verið að rugga bátnum í þeim efnum og að aðgangur að náttúruverndarsvæðum sé tryggður þannig að hann sé örugglega gjaldfrjáls.

En ég sé í þeim umsögnum sem komið hafa að sveitarfélögin eru ánægð með að fá eitthvað til sín. Þau hafa kallað mjög eftir því að fá eitthvað af þeim gífurlegu tekjum sem komið hafa inn í landið með ferðamönnum. Ferðaþjónustan telur að á síðasta ári hafi hún lagt um 70 milljarða til samfélagsins. Það er auðvitað engin smáupphæð í stóra samhenginu og hefði verið hægt að gera ýmislegt við þá fjármuni, en þeir hafa því miður ekki nýst sem skyldi. Í umsögn frá Samtökum ferðaþjónustunnar um þetta mál kemur fram að þau hafa áhyggjur og telja að eðlilegt sé að greitt sé hóflegt og sanngjarnt gjald fyrir virðisaukandi þjónustu á viðkomustöðum ferðamanna um landið. En hins vegar sé það algjörlega óásættanlegt ef stjórnvöld eða sveitarfélög ætla sér að nýta gjaldheimtu og skattheimtu í ferðaþjónustu umfram samkeppnishæfni greinarinnar til að byggja upp aðra innviði og almannaþjónustu. Ég get alveg tekið undir það.

Þess vegna kalla ég eftir því að fyrir liggi einhver greining og heildstæð stefna í þessum stóra og mikilvæga málaflokki. Vandræðagangurinn hefur auðvitað verið alveg með ólíkindum í gegnum árin. Við þekkjum öll umræðuna um náttúrupassann og landeigendur sem farið hafa að rukka inn á sitt svæði þvert gegn lagaumgjörðinni. Það hefur verið ansi hátt hlutfall sem menn hafa þurft að greiða á móti í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða til að fá úr honum. Það hefur ekki legið fyrir fyrr en í lok árs hvort menn hafa fengið sínar umsóknir afgreiddar. Framkvæmdatíminn er stuttur, svo allt hefur þetta farið á einn veg, að þeir fjármunir sem komið hafa í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða hafa ekki nýst sem skyldi.

En auðvitað er samt endurskoðun í pípunum á öllum þessum málum varðandi þessa sjóði sem verið hafa til staðar, eða að breyta hlutverki Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Það er annað mál sem er í þinginu. En það vantar einhverja yfirsýn yfir þetta allt. Í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar segir, með leyfi forseta:

„Samtökin eru alfarið mótfallin boðuðum breytingum án greiningar á skipulagi og samræmingu í gjaldtöku á ferðaþjónustu. Það er ólíðandi að stjórnlaus gjaldtaka af hálfu opinberra aðila geti viðgengist hér á landi og gildir þá einu hvort um bílastæðagjöld eða aðra innheimtu sé að ræða. Samtalið við stjórnvöld um fjármögnun og uppbyggingu innviða á sér stað á ýmsum sviðum og hefur tilkoma Stjórnstöðvar ferðamála vissulega eflt það samtal. Raunveruleikinn er hins vegar sá að auknar álögur og gjaldtaka á greinina er það eina sem stjórnvöld leggja áherslu á að koma í framkvæmd án samtals eða samráðs við hagsmunaaðila og er það ámælisvert.“

Ég vil undirstrika þetta, og það eru stór mistök hjá stjórnvöldum að hafa ekki átt þetta samtal við ferðaþjónustuna varðandi undirbúning. Þau ná svo loksins samstöðu innan sinna raða um bílastæðagjöld og telja að þau eigi að leysa vandann. Það er auðvitað það sem maður óttast, að þá telji menn að búið sé að uppfylla þörf sveitarfélaganna, að þau fái þá sína sneið af kökunni til þess að byggja upp innviði hjá sér. En ég tel að það sé langt í frá nægilegt að gera það með þessum hætti.

Það þarf að skoða gistináttagjaldið gagnvart sveitarfélögunum. Mér þykir það líka undarlegt að innheimta sama gistináttagjald, 300 kr. á nótt, hvort um tjaldstæði eða fimm stjörnu hótel er að ræða. Það er auðvitað ekkert vit í því að hafa gjaldtökuna með þeim hætti. Ég batt vonir við það þegar gistináttagjaldið var endurskoðað að menn myndu tengja það við verð gistingar. En það var ekki gert. Ég tel alveg rétt að gistináttagjaldið renni að hluta til sveitarfélaga. En þá skulum við líka horfa til jafnræðis. Það er alveg spurning hvernig hægt er að skoða það, því að auðvitað er mest gistirými hér á höfuðborgarsvæðinu. Svo eru mörg sveitarfélög mjög víðfeðm vegna sameininga og hafa kannski ekki marga gististaði hlutfallslega innan síns svæðis. Þau þurfa að viðhalda innviðum og taka á móti gífurlegum fjölda ferðamanna sem kallar aftur á uppbyggingu og viðhald og þjónustu.

Þess vegna finnst mér sanngjarnt varðandi gistináttagjald, ef það rennur til sveitarfélaga að einhverjum hluta, að ekki sé eingöngu horft til þess hvar stofnast til þess, heldur verði nýtt einhver jöfnunarleið í þeim efnum, því að það þarf að horfa til fleiri þátta en bara þess hvar gistingin er og hvar tekjurnar koma inn. Það þarf líka að horfa til þess hversu stóru svæði sveitarfélögin þurfa að sinna, t.d. í hinum stóru og víðáttumiklu sveitarfélögum vítt og breitt um landið sem stækkað hafa eftir miklar sameiningar.

Þetta mál hefur verið mjög umdeilt og margir hafa miklar skoðanir á því að verið sé að opna eitthvert pandórubox með því að setja á bílastæðagjöld yfir höfuð, þá sé hætta á því að menn teygi sig lengra og fari að rukka fyrir aðgang inn á svæðin. Það er auðvitað líka spurning um ásýndina gagnvart ferðamönnum, ef menn mega ekki snúa sér við án þess að rukkað sé fyrir hina og þessa þjónustu, sem endurspeglar ekki endilega þjónustuna heldur opnar það heimildir á gjaldtöku burt séð frá því hversu mikið þjónustan kostar. Þá ætti auðvitað að vera miðað við það að ef sveitarfélög og fleiri sem fara í nýframkvæmdir, byggja bílastæði, þurfa þau auðvitað að afla miklu meiri tekna en þeir sem búnir eru að byggja bílastæði og eru kannski að bæta við og auka þjónustuna. Þetta hlýtur að þurfa að skýra miklu betur.

Ef þetta mál fer aftur til nefndar á milli 2. og 3. umr. tel ég að spyrja þurfi ýmissa spurninga sem komið hafa upp í umræðunni til þess að skýra málið betur. Það þarf að eiga betra samráð við Samtök ferðaþjónustunnar og vinna að því að samræma þetta miklu betur. Á þetta að vera einhver aðgangsstýring? Því verður líka að svara. Mér finnst ótal spurningum vera ósvarað, en ég skil alveg þá miklu þörf sem er fyrir hendi. Sveitarfélögin vantar fjármuni. Þau vilja fá eitthvað af kökunni og eiga að gera það. En þetta eitt og sér dugar ekki til, það þarf meira til þess að þau geti sinnt sínu hlutverki við að byggja upp innan sinna sveitarfélaga.