146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

umferðarlög.

307. mál
[21:19]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, það er auðvitað alltaf erfitt að gera öllum til hæfis í þessum málum. Það er nú kannski eins og gengur og gerist á myndarlegum heimilum. Þú átt von á gestum og byrjar á því að koma heimilinu í það stand að þú sért þokkalega ánægður með að vera búinn að taka til svo að gestirnir geti komið inn á heimilið. Það er svolítið þannig með ferðamannalandið Ísland. Við sem stjórnum þessu heimili, Íslandi, vorum ekki búin að taka til hjá okkur áður en allir þessir gestir komu. Við fengum þá í fangið og höfum verið að vandræðast með í hvaða herbergi við eigum að byrja að taka til í. Við höfum verið að hlaupa á milli og ekkert orðið úr verki. Mér finnst það vera svolítið þannig. Með þessum bílastæðagjöldum ákváðum við að við skyldum byrja á að taka til á baðherberginu og salerninu og hafa það í lagi. (Gripið fram í.) Þannig virkar þetta. En kannski er stofan öll í rusli og allt út um allt.

Nei, ég held að við eigum að vera búin að móta okkur afstöðu um það hvernig við sjáum þessa innheimtu fyrir okkur. Það er margt í þessu sem vekur upp spurningar. Stundum þarf vissulega að stíga fyrstu skrefin þó að menn sjái ekki alveg fyrir endann á hlutunum. Þess vegna mun ég ekki leggjast gegn frumvarpinu, langt í frá, (Forseti hringir.) heldur benda á að við þurfum að svara ýmsum spurningum sem vakna við lestur þess.