146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

barnaverndarlög.

426. mál
[21:47]
Horfa

Flm. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Meðalhófsreglan er mjög mikilvæg. En það er mikill misskilningur að þetta fjalli um það þegar fólk stendur í forræðisdeilu. Hér er gert ráð fyrir að forræðisdeilunni sé lokið. Það er kjarni málsins. Það er komin niðurstaða og fólk fer ekki að niðurstöðunni. Niðurstaðan byggist á velferð barnanna. Þegar niðurstaðan er komin snýst þetta ekkert um forræðisdeilur. Menn mega ekki rugla því saman. En ég er hins vegar ekki og hef aldrei verið talinn refsiglaður maður. Kannski öfugt við marga aðra. Fyrir mér er þessi fangelsisrefsing ekki heilög. Ég hef engan áhuga á fangelsisrefsingum yfir höfuð. Tel að þær séu ofnotaðar í íslensku samfélagi. Við getum hugsanlega farið yfir það og komist að þeirri niðurstöðu að það gæti þá varðað forræðis- eða forsjársviptingu. Það er allt í lagi að fara yfir það. Förum yfir það. Nefndin fer væntanlega yfir það. Það getur verið ágætisniðurstaða. Ég er bara að reyna að hafa þetta í samræmi við ákvæði sem eru í gildi núna. Þess vegna er ákvæði um allt að fimm ár í þessu líka.