146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

barnaverndarlög.

426. mál
[22:05]
Horfa

Flm. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hafi verið algerlega með lokuð eyrun áðan í umræðunni. Þetta mál snýst ekkert um að kasta einhverjum foreldrum í fangelsi. Ég ætla að spyrja hv. þingmann, svo allt sé á hreinu: Telur þingmaðurinn að tálmun af þessu tagi sem gert er ráð fyrir hér sé brot gegn barni? Þetta er ekki spurning um neinar samningaviðræður, það er komin niðurstaða í málinu, búið að semja, búið að kveða upp dóm og búið að kveða upp úrskurð. Þetta snýst ekki um að fólk sé í deilu og sé að kasta öðrum í fangelsi. Það snýr ekki að því.

Telur hv. þingmaður þetta brot gegn barninu? Telur hv. þingmaður að önnur brot sem sama refsing liggur við geti ekki verið jafn slæm fyrir forsjárforeldrið og þetta? Eigum við þá ekki bara að hætta alveg að refsa forsjárforeldri, sama hvað það gerir, nema barnið sé bara í lífshættu, eða hvað? Hvar liggja mörkin? Ekki liggja þau við rassskellinguna eina. Það þarf að svara því.

Ef þetta er brot vil ég vita hvort þingmaðurinn telur svo vera eða ekki. Ef hann er sammála um að þetta séu brot, eiga þá ekki að vera viðurlög við þeim brotum eins og öllum öðrum, hvort sem það er þessi refsing eða einhver önnur?