146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

barnaverndarlög.

426. mál
[22:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hversu oft hefur því ákvæði barnaverndarlaga verið beitt að senda foreldri í fangelsi út frá þeim ákvæðum sem hv. þingmaður vísar í? (BN: Aldrei.) Nákvæmlega. Aldrei. Dauður lagabókstafur samkvæmt þeim umsagnaraðilum sem við fengum frá t.d. Barnaheill og umboðsmanni barna.

Já, tálmun er vissulega mjög alvarlegt mál. Og já, er brot gegn barni. En nei, það er alger óþarfi að henda foreldrum í fangelsi fyrir það. Það er ekkert flóknara en það. (BN: Hvað eigum við að gera?) Það er fullt af leiðum til að bregðast við þessum vandamálum. Það er lögð áhersla á sáttaleiðina. Það eru aðferðir samkvæmt bestu ferlum sem lagðar eru til, að reynd sé sáttameðferð. Við erum kannski ekki nógu góð í henni. Við erum kannski ekki komin nógu langt með það kerfi. En lausnin á okkar vanhæfi í því er ekki bara að segja: Æ, við getum ekki gert betur í sáttameðferðinni, getum ekki lagt nógu mikið í hana þannig að nú hendum við bara foreldrum í fangelsi. Ef vilji löggjafans er ekki að henda foreldrum í fangelsi, gæti þurft að þola refsivist eins og hv. þingmaður sagði í framsögu sinni, þá á það ekki að standa í lögunum.