146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

barnaverndarlög.

426. mál
[22:26]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Við hv. þm. Brynjar Níelsson erum bara alls ekki sammála um að kynjavinkillinn sé stór hluti af þessu máli. Einmitt vegna þess, eins og ég rakti hér í ræðu minni, að enn þann dag í dag, árið 2017, eru 90% barna einstæðra foreldra búsett hjá mæðrum sínum.

Hv. þm. Brynjar Níelsson spyr hvort mér þyki brot á umgengni á borð við tálmun brot á réttindum barna. Brot á umgengni og þar af leiðandi tálmun, þótt hún sé hvergi skilgreind með ítarlegum hætti, er sannarlega, líkt og hv. þingmaður rakti í ræðu sinni áðan, brot á umgengnissamningi sem hefur verið gerður á milli foreldra. (BN: Er þetta brot á réttindum ungra barna?) Það er vissulega réttur barna að umgangast foreldra sína ef það er í hag barnsins. Þá er það það, vissulega.

En eins og ég sagði áðan þurfum við að bæta þennan málaflokk, styrkja sáttameðferð, styrkja ráðgjöf til foreldra og stytta þann biðtíma sem foreldrar sem skilja að skiptum þurfa að bíða eftir því að fá lendingu í sínum málum. Því að ef sá tími lengist, þar sem óvissan ríkir og enginn samningur er fyrir hendi, er það nú oft þannig að málin fara og þróast á verri veg.

Hér er um að ræða frumvarp sem ég er sannfærð um, ólíkt hv. þm. Brynjari Níelssyni, að er samið fyrir hag ákveðins hóps foreldra en ekki samið með það að leiðarljósi að huga sem best að réttindum barna.