146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

barnaverndarlög.

426. mál
[22:31]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að heyra að hv. þingmanni finnist það bagalegt fyrir börnin að missa af því að umgangast og sjá annað foreldrið. (BN: Það er bara tekið af því.) Samt sem áður er hann að leggja fram hér frumvarp þar sem lagt er til að öðru foreldrinu sé varpað í fangelsi í fimm ár. Það þykir mér vera undarleg röksemdarfærsla hjá hv. þingmanni og hæstaréttarlögmanni.

Ég vil líka benda hv. þingmanni á að við höfum nú þegar í barnaverndarlögum ýmis úrræði til að nota við þessar aðstæður, þessar hörmulegu aðstæður, sem eru fjölskylduharmleikur — um það erum við hv. þingmaður sammála. Við erum með í barnaverndarlögunum ákvæði um úrskurðun dagsekta, fjárnám fyrir ógreiddum dagsektum og svo aðfararaðgerðina þar sem lögregla kemur inn á heimili og fjarlægir barn til að það fái að umgangast hitt foreldrið. Sú aðgerð er þrátt fyrir það ekki óumdeilanleg, heldur betur ekki. (BN: Hefur aldrei virkað.) Sú aðgerð er ekki óumdeilanleg þannig að ég á mjög bágt með að sjá að það að varpa öðru foreldri í fimm ára fangelsi sé betri og mildari aðgerð til að leysa úr vanda þessara barna.

Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur í huga að þetta ákvæði, um fimm ára fangelsisvist, hafi fælingarmátt í þessum málum. En ég spyr á móti: Hvers vegna vill hv. þm. Brynjar Níelsson ekki frekar beita sér fyrir styrkingu úrræða á fyrri stigum mála? Koma betur að því að styrkja úrræði, ráðgjöf og fjármuni? (BN: Af því að þetta er ...) Fjármuni til þeirra embætta sem fara með þessi mál nú þegar, til þess að lina þjáningar þeirra barna sem honum er svo umhugað um.