146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.

414. mál
[22:50]
Horfa

Flm. (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir, mál 414 á þskj. 547. Tillagan hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra, í samvinnu við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að móta eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir. Ráðherra leggi stefnuna fyrir þingið í formi þingsályktunartillögu eigi síðar en 1. október 2017.

Með tillögu þessari er fjármála- og efnahagsráðherra falið að móta eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir. Þróun síðustu ár hefur verið sú að sífellt fleiri jarðir fara úr ábúð og það hefur veikt mjög hinar dreifðu byggðir landsins sem eru mikilvægar út frá byggðasjónarmiðum og til að tryggja matvælaframleiðslu og jafnrétti til búsetu. Síðasta áratug hafa orðið miklar breytingar á landnotkun í dreifbýli en sú breyting sem hefur hvað víðtækust áhrif er mannfjöldi sem ræðst að verulegu leyti af atvinnumöguleikum fólks.

Markmið tillögu þessarar er einkum það að ríkið marki sér stefnu sem tryggi möguleika fólks á að hefja búskap. Einnig þarf að horfa til náttúruverndar og uppbyggingar ferðamannasvæða. Sömuleiðis þarf að skilgreina hvers konar landsvæði skuli vera í eigu ríkisins og þar með hvaða landsvæði sé heppilegra að sé í eigu einkaaðila.

Árið 2013 skipaði umhverfis- og auðlindaráðherra starfshóp um landnotkun í dreifbýli og sjálfbæra landnýtingu. Í lokaskýrslu starfshópsins frá ágúst 2015 kemur fram að mikilvægt sé að móta eigendastefnu fyrir landareignir í eigu ríkisins, hvernig beri að nýta og ráðstafa þeim, þar með talið hvort og hvaða jarðir skuli vegna sérstöðu sinnar vera í eigu ríkisins, hverjar megi selja og hverjar leigja, og þá eftir atvikum, með hvaða kvöðum.

Margar jarðir í eigu ríkisins hafa mikla sérstöðu með tilliti til náttúru, sögu og menningar, en flestar bújarðir og jarðahlutar eru í umsjón stofnana ríkisins eða ábúenda sem hafa þær til afnota gegn leigugjaldi. Samkvæmt jarðalögum, nr. 81/2004, fer fjármála- og efnahagsráðuneytið með forræði ríkisjarða og kveða lögin á um kaup, sölu og aðra ráðstöfun ríkisjarða. Lögin kveða hins vegar ekki á um að ríkið skuli setja sérstaka stefnu fyrir sínar jarðir. Úr því er mikilvægt að bæta því víða stefnir í óefni. Fram hefur komið í fjölmiðlum að nú um stundir er nánast ómögulegt að kaupa ríkisjarðir eða fá þær til ábúðar.

Flutningsmenn telja eðlilegt að við mótun stefnunnar verði haft samráð t.d. við Bændasamtök Íslands, Landgræðslu ríkisins, Samband íslenskra sveitarfélaga og Skógrækt ríkisins.

Hæstv. forseti. Umræða um jarðakaup útlendinga hefur verið töluverð að undanförnun en er ekki ný af nálinni. Hinn 17. apríl 2013 setti þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, nýja reglugerð um kaup útlendinga með lögheimili á EES-svæðinu á fasteignum hér á landi. Samkvæmt henni máttu EES-borgarar ekki kaupa land á Íslandi nema þeir hefðu lögmæta dvöl eða starfsemi hérlendis. Reglugerðin var numin úr gildi nokkrum mánuðum síðar af þáverandi innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem taldi reglugerðina ekki samræmast skuldbindingum landsins vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Í janúar 2017 skipaði þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp með það að markmiði að endurskoða lög og reglur um kaup erlendra aðila á bújörðum á Íslandi. Starfshópnum er ætlað að leggja mat á það hvaða takmarkanir komi helst til greina til að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins. Í því sambandi má nefna að eignarhald á landbúnaðarlandi er takmarkað í dönskum jarðalögum og skilyrði sett fyrir kaupum erlendra ríkisborgara.

Fjölmargir leigusamningar hafa verið gerðir um ríkisjarðir þar sem leigutaki býr á jörðinni. Einnig er algengt að jarðir séu leigðar til slægna og beitar til aðila sem búa á aðliggjandi jörðum. Húsakostur er forsenda þess að geta hafið ábúð á jörð, því henta eyðijarðir almennt ekki til ábúðar.

Hæstv. forseti. Sem betur fer er fjöldi fólks tilbúinn til að leggja matvælaframleiðslu fyrir sig og stunda landbúnað, eiga og ala upp börn sín í sveitasamfélagi, byggja upp samfélagið og vera þar bústólpar, en því miður hefur þróunin verið sú að sífellt fleiri jarðir hafa farið úr ábúð. Það hefur veikt mjög hinar dreifðu byggðir landsins sem eru mikilvægar út frá byggðasjónarmiðum og liður í að tryggja jafnrétti til búsetu sem er okkur Framsóknarmönnum hugleikið.

Þessu til áréttingar má benda t.d. á það sem oddviti Skaftárhrepps sagði í frétt á RÚV sem birtist á vefnum á dögunum. Þar kemur fram að ríkið hafi tekið sér mörg ár í að móta stefnu um ríkisjarðir. Góðar bújarðir hafi farið í eyði vegna þess að þær hafi ekki verið auglýstar. Oddvitinn kallar eftir stefnumótun af hálfu ríkisins í þessum málum. Ástandið er slæmt í Skaftárhreppi sem er einn af þátttakendum í samstarfsverkefninu Brothættar byggðir. Mikið er í húfi fyrir sveitarfélög sem byggja afkomu sína að stórum hluta á landbúnaði og ferðaþjónustu. Í Skaftárhreppi eru fjöldi góðra jarða í Meðallandi og eru flestar þeirra komnar í eyði. Því miður eru þetta ekki einu dæmin sem tína má til. Vil ég líka vekja athygli á ástandinu á Norðausturlandi. Þar eru jafnvel dæmi um að bændur hafi setið lengur á jörðum en þeir ætluðu sér til að verja jarðir frá því að fara í órækt. Það kostar mikið ef ekki er samfella í búskap, túnin fara úr rækt og menn þurfa að koma sér upp nýjum bústofni. Það gilda nefnilega ekki sömu aðferðir við sölu á húseignum og jörðum sem í ábúð eru og standa undir búskap.

Hæstv. forseti. Lítið sem ekkert hefur verið gert til að selja og setja þessar jarðir í ábúð og auglýsa þær. Góðar jarðir hafa einfaldlega verið látnar drabbast niður vegna aðgerðaleysis af hálfu ríkisins. Því þarf að breyta. Með þingsályktunartillögu þessari er tekið markvisst skref í þá veru að færa þau mál til betri vegar.

Eins og fram kemur í greinargerðinni hafa margar landareignir í eigu ríkisins mikla sérstöðu hvað varðar náttúru, sögu og menningu. Stefnumótunin þarf að taka mið af því hvernig beri að nýta þessar jarðir, ráðstafa þeim. Hún þarf að vera leiðarvísir þannig að ljóst sé hvaða jarðir skulu vegna sérstöðu sinnar vera í eigu ríkisins, hverjar megi selja og hverjar leigja og með hvaða kvöðum. Í því sambandi langar mig til að minnast á nýlega sölu á Vífilsstöðum, en þar var þingið ekki haft með í för. Ég spyr: Hvar er stefnumörkunin? Hvaðan kom beiðnin? Hver mat verðið? Mér hefði fundist eðlilegt að bíða svolítið og taka umræðu um það í þinginu hvers vegna ætti að selja þá jörð.

Á dögunum birtist svar við skriflegri fyrirspurn hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur til fjármála- og efnahagsráðherra um ríkisjarðir. Í svari ráðherra við spurningu um stefnu ríkisstjórnarinnar um ríkisjarðir og hvort ráðherra hyggist láta endurmeta stefnu á sviði jarðamála ríkisins segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Í fjármálaáætlun fyrir árið 2018–2022 um eignaumsýslu ríkisins sem lögð hefur verið fram á Alþingi kemur enn fremur fram markmið um að setja skýrari ramma um hagnýtingu lands, náttúru og auðlinda í umráðum ríkisins. Í ljósi vaxandi hagnýtingar vegna fjölgunar ferðamanna er þörf á bættri umgjörð um hvernig hagnýtingu auðlinda á ríkisjörðum er stýrt og til að tryggja sýnilega og eðlilega arðsemi. Þá skal auka hagkvæmni, skilvirkni, gegnsæi og þekkingu á fasteigna-, jarðeigna- og auðlindaumsýslu ríkisins. Einnig er mikilvægt að framtíðarfyrirkomulag eignarhalds ríkisins á fasteignum, jörðum og ábúðarjörðum verði fullmótað og gerð ítarleg skil í sérstakri eigandastefnu ríkisins, sbr. 43. gr. laga um opinber fjármál.“

Í svari ráðherra við spurningu um hvort hann hyggist leggja mat á kosti og galla þess að ráðstafa ríkisjörðum til ábúðar er aftur vitnað í að unnið sé að gerð eigandastefnu fyrir land og jarðir í eigu ríkisins. Liður í því sé að leggja mat á kosti og galla þess að setja ríkisjarðir í ábúð.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands er að gera sérstaka greiningu á úttekt á ábúðarkerfinu þar sem leggja á mat á stöðu kerfisins og hagkvæmni. Flutningsmenn tillögunnar kalla eftir því hvar þessi vinna er stödd því að málið er aðkallandi. Sú staðreynd að ríkissjóður á um 450 jarðir sem flestar eru nýttar til landbúnaðar felur í sér mikil tækifæri, tækifæri til að styrkja byggðir og styðja við íslenskan landbúnað sem býr yfir mikilli þekkingu og verðmætum sem felast m.a. í heilbrigðum bústofni og þekkingu bænda á landinu.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt.

Að þessu máli standa auk þeirrar sem hér stendur allur þingflokkur Framsóknar, þ.e. eftirtaldir hv. þingmenn: Elsa Lára Arnardóttir, Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Lilja Alfreðsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til atvinnuveganefndar.