146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

289. mál
[23:11]
Horfa

Flm. (Pawel Bartoszek) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, breytingum sem myndu fella á brott skilyrði um EES-ríkisborgararétt þegar kemur að störfum á vegum ríkisins. Að frumvarpinu stendur þingflokkur Viðreisnar sem er í takt við þá stefnu sem birt er á heimasíðu flokksins í kafla um málefni innflytjenda og flóttamanna. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fólk utan EES eigi greiðari leið að vinnu og búsetu.“

Hér erum við að reyna að uppfylla það loforð með því að opna meira á vinnumarkaðinn, þ.e. hinn opinbera vinnumarkað.

Frumvarpið er stutt. 1. gr. þess hljómar svo, með leyfi forseta:

„4. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna fellur brott.“

Ég ætla örlítið að fara yfir þessa 6. gr., með leyfi forseta, til að fólk átti sig á samhenginu. Í 6. gr. þessara laga er fjallað um almenn skilyrði til þess að fá skipun eða ráðningu í starf. Í fyrsta lagi er það 18 ára aldur, þó með einhverjum undantekningum um ræstingar, sendilsstörf og þess háttar. Í öðru lagi er það lögræði. Í þriðja lagi er það nauðsynlegt heilbrigði. Í fjórða lagi, og ég ætla að lesa þann málslið allan:

„4. Íslenskur ríkisborgararéttur. Þó má ráða ríkisborgara frá öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum til starfa með sömu kjörum og íslenska ríkisborgara. Einnig má víkja frá þessu ákvæði þegar um er að ræða aðra erlenda ríkisborgara ef sérstaklega stendur á.“

Í 5. málslið er fjallað um almenna menntun og þá sérmenntun sem viðkomandi starf krefst. Í sjötta lagi ef fjallað um fjárforræði þegar um er að ræða starf sem fylgja fjárreiður.

Við leggjum sem sagt til að krafan um ríkisborgararéttinn falli brott en að kröfurnar um aldur, lögræði, heilbrigði, menntun og fjárforræði verði óbreyttar.

Ég ætla í þessari flutningsræðu að fara lauslega yfir sögu þessarar löggjafar á Íslandi. Síðan ætla ég að bera okkur saman við önnur lönd, svo að færa rök okkar fyrir því að við eigum að gera þetta og loks að velta því lauslega fyrir mér hvaða áhrif þetta muni og muni ekki hafa.

Það má segja að fyrstu útgáfu þessarar greinar í einhverju formi sé að finna í konungsbréfi frá 8. apríl 1844 um íslenskukunnáttu þeirra er sækja um embætti á Íslandi. Ég ætla ekki að lesa orðrétt upp úr þessu bréfi, virðulegi forseti, því að það væri brot á þingsköpum, enda er þetta bréf um íslenskukunnáttu embættismanna á Íslandi vitanlega á dönsku. Í lauslegri þýðingu er textinn svona:

„Það er vor allrahæsti vilji að sérhver sem fær ráðningu í embætti á landi voru, Íslandi, hafi þá þekkingu á máli landsins að hann geti hið minnsta skilið innfædda og að þeir geti skilið hann.“

Þarna var ekki hægt að krefjast íslensks ríkisfangs, enda Ísland ekki fullvalda ríki, en þannig ákvæði rataði hins vegar inn í stjórnarskrána okkar og í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins frá 1954 er að finna eftirfarandi ákvæði sem á við þá alla starfsmenn, ekki bara embættismenn, og svo ég lesi það, með leyfi forseta, hljómaði það á þeim tíma svo, ein af kröfunum var íslenskur ríkisborgararéttur:

„Víkja má þó frá þessu ákvæði, ef telja má sérstaklega eftirsóknarvert að fá erlendan ríkisborgara til að gegna starfa til bráðabirgða, en eigi má skipa hann fyrr en hann hefur öðlazt íslenzkan ríkisborgararétt.“

Það varð stór breyting á ákvæðinu með EES-samningnum og eftir það hljómaði ákvæðið svo, með leyfi forseta:

„Íslenskur ríkisborgararéttur. Þó getur ráðherra heimilað að ríkisborgarar annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins verði ráðnir til starfa með sömu kjörum og íslenskir ríkisborgarar. Einnig má víkja frá þessu ákvæði ef telja má sérstaklega eftirsóknarvert að fá erlendan ríkisborgara til að gegna starfi til bráðabirgða.“

Breytingin með EES-samningnum varð sem sagt sú að ráðherra gat heimilað EES-borgurum að fá opinbert starf. Síðan var áfram fyrsta ákvæði um að mætti ráða aðra til bráðabirgða ef það var sérstaklega eftirsóknarvert.

Með nýjum lögum síðar var stigið annað stórt skref og þá er ákvæðið eins og það hljómar nú:

„Íslenskur ríkisborgararéttur. Þó má ráða ríkisborgara frá öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum til starfa með sömu kjörum og íslenska ríkisborgara. Einnig má víkja frá þessu ákvæði þegar um er að ræða aðra erlenda ríkisborgara ef sérstaklega stendur á.“

Í þessum lögum var sem sagt krafa um leyfi ráðherra felld á brott gagnvart EES-borgurum og þess var ekki lengur krafist að ráðning borgara frá þriðja ríki væri til bráðabirgða.

Framkvæmdin í dag, eftir því sem ég best veit, og ég hef grennslast fyrir á tveimur stærstu opinberu ríkisvinnustöðum landsins, Háskóla Íslands og Landspítalanum, er sú að í raun er ekki leitað eftir sérstöku leyfi í hvert sinn heldur lagt mat á það hvort það „standi sérstaklega á“, það mat er einfaldlega á höndum viðkomandi stofnunar. Og þegar litið er yfir auglýsingar á starfatorg.is virðist það heyra til algerra undantekninga að farið sé fram á þessa kröfu. Þegar ég undirbjó þetta mál fyrst var ein auglýsing þar inni og hún fjallaði um lærlingsstöðu í utanríkisráðuneytinu. Hvorki í kennslu- né fræðistörfum eða í störfum í heilbrigðisgeiranum virðist þessi krafa virk, menn láta aðrar faglegar kröfur, t.d. kröfu um íslenskt hjúkrunarleyfi, einfaldlega duga, þannig að á margan er hinn opinberi markaður þegar kominn þangað sem við viljum fara í þessu frumvarpi.

Það skal tekið fram að í frumvarpinu er ekki verið að breyta fyrirkomulaginu þegar kemur að embættismönnum, t.d. dómurum, lögreglumönnum, saksóknurum, ráðuneytisstjórum eða þeim sem fara með opinbert vald. Flest ríki setja slíkar reglur þegar kemur að þeim sem fara með opinbert vald en mun sjaldgæfara er að slíkt gildi um öll störf; kennara, lækna, hjúkrunarfræðinga, sérfræðinga eða aðra sem vinna hjá ríkinu.

Alls staðar á Norðurlöndunum hefur verið fallið frá kröfum um ríkisfang við opinber störf. Slíkar reglur gilda ekki í Hollandi, Kanada, Bandaríkjunum, Bretlandi eða Írlandi. Á mörgum stöðum eru heimilaðar undantekningar, Ísland er eitt dæmi um slíkt, Þýskaland er annað og sums staðar, t.d. í Frakklandi, Tyrklandi eða Póllandi, er lagalega krafan um ríkisborgararétt nokkuð afdráttarlaus. Við liggjum sem stendur fyrir miðju en við í Viðreisn myndum vilja að Ísland væri jafn frjálslynt í þeim efnum og nágrannalönd okkar.

Það er okkar mat að þessar reglur geti virkað hamlandi og dregið úr sveigjanleikanum á hinum opinbera vinnumarkaði. Þrátt fyrir að framkvæmdin í dag sé í raun að færast í það horf sem við vildum að lögin væru í gæti það breyst aftur til baka án þess að lagasetningu þyrfti sérstaklega til. Reglurnar geta þar að auki virkað letjandi á hæft fólk sem ellegar myndi sækja um vegna þess að fólk kannski les lög og ef menn halda að þeir geti einungis fengið starf í undantekningartilvikum er kannski líklegt að menn sæki síður um. Og eins og áður sagði er stærsti hluti opinberra starfa, ef ég tek sérstaklega kennslu og heilbrigðisstörf fyrir, þannig að það þarf hvort sem er einhvers konar sérhæfða menntun eða sérstakt leyfi til að gegna því starfi en að okkar mati er ekki sérstök ástæða til að útiloka fólk sem hefur t.d. verið hér í fimm til sex ár, hefur ekki íslenskan ríkisborgararétt eða af einhverjum ástæðum sækist ekki eftir honum.

Afnám þessa skilyrðis myndi færa okkar löggjöf til sama horfs og þekkist á Norðurlöndum. Afnám þessa skilyrðis myndi einnig bæta skor okkar í ýmsum alþjóðlegum samanburði. Þá nefni ég sérstaklega MIPEX-kvarðann sem mælir það hve vinveitt ríki eru innflytjendum.

Loks myndi þetta senda rétt skilaboð um að við gerum kröfu um að einkafyrirtæki mismuni ekki. Segjum að búð á Laugaveginum myndi auglýsa: Fólk óskast til vinnu. Aðeins Íslendingar eða Evrópubúar koma til greina. Einhverjum mynda þykja það verulega óviðeigandi og slá vondan tón, en ríkið gerir þetta í lögum og kemst upp með það.

Nei, slíkar reglur eru ekki í gildi á almenna vinnumarkaðnum, þar eru almennar reglur um atvinnu- og dvalarleyfi einfaldlega látnar duga. Við sjáum ekki ástæðu til að ríkið setji strangari kröfur en það, en það væri að sjálfsögðu hægt að setja áfram málefnaleg skilyrði um málefnalega þætti eins og íslenskukunnáttu o.s.frv.

Í dag eru þrjár leiðir til að vera á atvinnumarkaðnum. Ein þeirra er hinn opinberi vinnumarkaður, svo er hinn almenni, einkarekni vinnumarkaður og síðan geta menn verið sjálfstætt starfandi. Af þeim er það í rauninni þannig að einkamarkaðurinn er hvað mest opinn hvað þetta varðar, þar eru engar sérstakar kvaðir um ríkisborgararétt þegar menn hafa fengið atvinnuleyfi. Við erum enn allt of lokuð þegar kemur að rétti fólks til að starfa sjálfstætt. Reyndar er ákvæðið í lögum þannig að það er beinlínis óheimilt að greiða sér endurgjald ef menn eru ekki á ótímabundnu dvalarleyfi, sem er slæmt og það myndi ég vilja endurskoða, en það er ekki partur af þessum lagabálki. Það sem er partur af honum er einfaldlega að gera löggjöf okkar jafn frjálslynda og þekkist í nágrannalöndum okkar og afnema þessa kröfu sem að einhverju leyti er ekki mikið farið eftir lengur.

Eins og áður sagði var við undirbúning þessa máls athugað lauslega hvaða þýðingu þetta ákvæði hefði á stærstu ríkisreknu vinnustaði landsins, Landspítalann og Háskóla Íslands. Þeir staðir virðast ráða töluvert af starfsfólki alls staðar að úr heiminum og ákvæðið virðist því ekki þvælast mikið fyrir þeim stofnunum. Þá gætu sumir notað það sem rök fyrir því að í rauninni þyrfti engu að breyta, en ég vil engu að síður leggja áherslu á það að lögin eiga að lýsa rétt því ástandi sem við búum við og við eigum líka að vera rétt metin á alþjóðavísu fyrir það sem við viljum vera, land sem er öllum opið, land tækifæranna ef við notum þá klisju.

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir því að frumvarpið gangi til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og 2. umr.