146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

289. mál
[23:22]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða yfirferð á sögu þessa máls og aðdraganda þess að hann samdi þetta frumvarp. Mig langar að lýsa yfir eindregnum stuðningi við það. Ég tel mjög brýnt að við afnemum allt form mismununar úr íslenskum lögum og sé engin haldbær rök fyrir því að við gerum ríkisborgararétt að einhvers konar skilyrði fyrir því að fólk fái að starfa fyrir hið opinbera. Ég tel það raunar hreina og klára mismunun í lögum sem við ættum almennt að vinna gegn í allri okkar löggjöf þar sem það stangast á við stjórnarskrá, eins og mér hefur orðið tíðrætt um í dag.

Því langar mig að þakka hv. þingmanni fyrir að leggja málið fram og lýsa því yfir að hann hefur a.m.k. minn stuðning ef ekki fleiri hv. þingmanna í þessu máli.