146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

almenn hegningarlög.

419. mál
[23:36]
Horfa

Flm. (Jón Steindór Valdimarsson) (V):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum en flutningsmenn eru, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Hanna Katrín Friðriksson, Jóna Sólveig Elínardóttir og Pawel Bartoszek. Umfjöllunarefnið er alvarlegt: Á síðasta ári leituðu 169 einstaklingar á neyðarmóttöku Landspítala vegna nauðgana en þeir hafa aldrei verið fleiri. Árið 2015 leituðu 145 einstaklingar til neyðarmóttökunnar. Þrátt fyrir þetta hefur nauðgunarkærum til lögreglu ekki fjölgað. Nauðgunarmálum sem komu inn á borð Stígamóta fjölgaði um 58 milli áranna 2015 og 2016. Talskona Stígamóta sagði í samtali við Morgunblaðið fyrir skömmu að það væri nærtækt að álykta að nauðgunarfaraldur hefði orðið. 27 lyfjanauðganir voru tilkynntar til Stígamóta 2016 en 13 árið 2015. 29 hópnauðganir voru tilkynntar til Stígamóta 2016 en 11 árið 2015.

Kynferðislegt ofbeldi og nauðganir eru samfélagslegt mein sem þarf að sporna við eins og nokkur kostur er með fræðslu, viðhorfsbreytingu og nauðsynlegum lagabreytingum. Frumvarp það sem hér er mælt fyrir er viðleitni í þá átt. Frumvarpið felur í sér að horfið verði frá því að skilgreina nauðgun út frá verknaðaraðferð. Þess í stað verði samþykki sett í forgrunn, með öðrum orðum að sá, sem á samræði eða önnur kynferðismök við annan án samþykkis hans, sé sekur um nauðgun. Þannig er það skortur á samþykki til samræðis eða annarra kynferðismaka sem skilgreinir nauðgunina. Samþykki fyrir samræði eða öðrum kynferðismökum þarf að hafa verið tjáð af frjálsum vilja.

Núgildandi 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga hefst með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun …“

Frumvarp okkar gerir ráð fyrir því að skipta út þessum upphafsorðum í 1. mgr. 194. gr. og setja í staðinn:

Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun …

Til viðbótar bætist síðan inn í ákvæðið:

Samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst ekki liggja fyrir ef það er fengið með ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung, eða með því að beita blekkingum eða hagnýta sér villu viðkomandi um aðstæður.

Hér er rétt að nefna að ekki er talin ástæða til að leggja til breytingu á 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, en þar segir að það teljist einnig nauðgun og varði sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða sé þannig ástatt um hann að öðru leyti að hann geti ekki spornað við verknaði eða skilið þýðingu hans, hvað þá veitt samþykki fyrir honum.

Frú forseti. Ákvæðum kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga er það öllum sameiginlegt að varða kynlíf fólks og er ætlað að vernda frelsi á því sviði. Hagsmunir þeir sem ákvæðin eiga að vernda eru fyrst og fremst friðhelgi einstaklingsins, þ.e. kynfrelsi og sjálfsákvörðunarréttur hvað varðar kynlíf, líkama og tilfinningalíf. Hver einstaklingur hefur þannig frelsi til að ákveða að hafa samræði eða önnur kynferðismök en jafnframt rétt til þess að hafna þátttöku í kynferðislegum athöfnum. Nauðsynlegt er að mati flutningsmanna að skilgreina nauðgun út frá skorti á samþykki til þess að unnt sé að veita kynfrelsi fullnægjandi réttarvernd.

Þekkt er að þolendur nauðgana geta ekki í öllum tilvikum veitt geranda mótspyrnu, t.d. vegna þess að þeir frjósa eða lamast af hræðslu. Rannsóknir hafa leitt í ljós að þessi viðbrögð eru algeng og að gerandi þarf þá ekki að beita miklu líkamlegu afli til að ná fram vilja sínum. Það verður sömuleiðis til þess að í reynd er óalgengt að þolendur beri mikla líkamlega áverka eftir nauðgun. Þetta kemur m.a. fram í skýrslu sem unnin var á vegum Eddu – öndvegisseturs í samvinnu við innanríkisráðuneytið árið 2013. Skýrslan fjallar um öll nauðgunarmál sem lögregla hafði til meðferðar á árunum 2008 og 2009. Í skýrslunni kemur fram að algeng viðbrögð eða mótspyrna brotaþola einkenndust oft af því að brotaþolar, sem í langsamlega flestum málanna voru konur og stúlkur, mótmæltu gerendum. Þegar gerendur virtu mótmæli þeirra að vettugi einkenndust viðbrögð þeirra af hræðslu og/eða áfalli og að þær sýndu í kjölfarið enga líkamlega mótspyrnu. Líkamlegt ofbeldi var því ekki sérstaklega algengt í kærumálum vegna nauðgana samkvæmt skýrslunni. Til að mynda reyndust alvarlegir líkamlegir áverkar afar sjaldgæfir.

Öll þekkjum við umræðu um kynferðisbrot, hversu fá þeirra rata til lögreglu, að veruleikinn er sá að sönnunarbyrðin er þung og að þau eru því miður, að því er virðist, útbreidd í samfélagi okkar.

Ljóst er að breytt skilgreining á nauðgun í almennum hegningarlögum breytir því ekki að sönnunarstaða í kynferðisbrotamálum verður alltaf þung. Þessi nýja skilgreining á nauðgun er því vissulega engin töfralausn. Á hinn bóginn er þessi breytta skilgreining til þess fallin að stuðla að brýnum breytingum á viðhorfum til brotsins. Verði nauðgun skilgreind út frá skorti á samþykki, eins og frumvarp þetta leggur til, mun áhersla á samþykki aukast við rannsókn og saksókn nauðgunarbrota. Þá mun slík skilgreining jafnframt fela í sér að mikilvægi kynfrelsis er gert mun hærra undir höfði en áður og jafnvel geta orðið til þess, samhliða aukinni fræðslu, að fólk verði meðvitað um mikilvægi þess að samþykki liggi fyrir þegar kynferðislegar athafnir eiga í hlut.

Flutningsmenn frumvarps þessa leggja ríka áherslu á almenn varnaðaráhrif slíks ákvæðis. Líklegt er að einstaklingar verði meðvitaðri um mikilvægi þess að samþykki er alltaf forsenda kynferðislegra athafna.

Þá er slík nálgun eðlileg refsiréttarleg þróun á útfærslu nauðgunarákvæðisins þar sem í auknum mæli hefur verið horfið frá áherslu á ofbeldi og hótanir gerenda og sjónum beint að vernd kynfrelsis, þ.e. hvort viðkomandi hafi samþykkt að taka þátt í kynferðislegri athöfn eða ekki. Að teknu tilliti til aukinnar þekkingar á eðli nauðgunar og þess veruleika þar sem brotin eiga sér stað þykir flutningsmönnum tímabært að nauðgun verði nú skilgreind út frá samþykki með sjálfsákvörðunarrétt, friðhelgi og athafnafrelsi einstaklinganna að leiðarljósi.

Frú forseti. Kynferðisbrotakafli almennra hegningarlaga var endurskoðaður í heild sinni með lögum nr. 61/2007. Í greinargerð með þeim breytingum segir að fram hefði komið gagnrýni á gildandi ákvæði kynferðisbrotakaflans, m.a. að þau veittu ekki brotaþolum næga réttarvernd, auk þess sem komið hefðu fram sjónarmið um að hugsanlega leyndust í lögunum gömul og úrelt viðhorf í afstöðu til kvenna.

Nú er liðinn um áratugur síðan ákvæði kynferðisbrotakaflans voru síðast tekin til endurskoðunar. Flutningsmenn telja að aftur sé tímabært að huga að endurskoðun nauðgunarákvæðisins og að það verði nútímalegt og endurspegli þá hagsmuni sem leitast er við að vernda. Þrátt fyrir bætta málsmeðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins er mikilvægt að ákvæði kynferðisbrotakafla hegningarlaga og framkvæmd þeirra sé í stöðugri endurskoðun.

Á undanförnum árum hefur umræða um kynbundið ofbeldi farið vaxandi hér á landi og mikill fjöldi kvenna og stúlkna stigið fram, m.a. á vettvangi samfélagsmiðla, og greint frá reynslu af kynferðisofbeldi og þannig lagt áherslu á að ekki verði lengur þagað um tilvist slíks ofbeldis og þann mikla vanda sem því fylgir. Þegar fjallað er um kynbundið ofbeldi, og í forvarnastarfi gegn því, hefur jafnframt verið lögð áhersla á að auka skilning ungs fólks á mörkunum milli kynlífs og ofbeldis og jafnframt að færa ábyrgð frá þolanda slíks ofbeldis til gerandans. Gott dæmi um það er stuttmyndin „Fáðu já!“ sem vakið hefur verðskuldaða athygli. Þá hafa dómar í kynferðisbrotamálum og frásagnir af meðferð nauðgunarmála innan réttarvörslukerfisins vakið viðbrögð og mótmæli í samfélaginu. Af umræðu um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins og um niðurstöður í einstaka dómsmálum má vel sjá að í auknum mæli er kallað eftir áherslubreytingu í þá veru að leggja meiri áherslu á skort á samþykki við skilgreiningu nauðgunarbrots.

Skilgreining á nauðgun sem byggist á því að samræði eða önnur kynmök fari fram án samþykkis þolanda er hvorki víðtækara né óljósara en sú skilgreining sem lögfest var með lögum nr. 61/2007. Með þeirri leið sem hér er lögð til, þ.e. að skilgreina hvað felst í samþykki, er nauðsynlegum kröfum um skýrleika refsiheimilda mætt með fullnægjandi og skýrum hætti. Kröfur um sönnun verða samkvæmt frumvarpi þessu eftir sem áður þær sömu. Hér er því ekki verið að leggja til öfuga sönnunarbyrði.

Ísland hefur fullgilt alþjóðasamninga sem hafa þýðingu um vernd gegn kynferðisbrotum og meðferð þeirra. Auk þess hafa eftirlitsnefndir samninganna m.a. gert athugasemdir við meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins. Í því sambandi má nefna samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum frá árinu 1979 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 1989. Kynferðisbrot og vernd gegn þeim hefur einnig verið til umræðu á vettvangi Evrópuráðsins. Þar ber helst að nefna mannréttindasáttmála Evrópu og mál fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu.

Í dómi mannréttindadómstólsins frá 4. desember 2003 í máli M.C. gegn Búlgaríu var talið að búlgarska ríkið hefði brotið gegn jákvæðum skyldum sínum samkvæmt 3. gr. og 8. gr. mannréttindasáttmálans með því að tryggja ekki að landslög í Búlgaríu og framkvæmd þeirra veittu næga vernd gegn nauðgunum og kynferðislegri misnotkun. Dómstóllinn taldi að líta yrði svo á að jákvæðar skyldur aðildarríkja samkvæmt 3. og 8. gr. mannréttindasáttmálans settu þau skilyrði að ákært og refsað væri fyrir kynferðisbrot þar sem samþykki lægi ekki fyrir, þar með talið í tilvikum þar sem þolandi veitti ekki virka mótspyrnu gegn brotinu.

Ísland hefur jafnframt undirritað samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Samningurinn sem oftast er kallaður Istanbúl-samningurinn var gerður árið 2011 og tók gildi árið 2014. Ísland skrifaði undir strax árið 2011 en er því miður ekki í hópi þeirra 22 ríkja sem þegar hafa staðfest hann. Í samningnum er einmitt lögð áhersla á að líta skuli til þess varðandi nauðgun hvort samþykki hafi legið fyrir fremur en til þeirra verknaðaraðferða sem beitt var við að fremja nauðgunina.

Löggjöf ríkja er nokkuð mismunandi varðandi skilgreiningu nauðgunar. Á Norðurlöndunum og í Þýskalandi er þekkt að tilgreina verknaðaraðferðir eða tilteknar aðstæður í lagaákvæðum um kynferðisbrot, þ.e. að skilgreina nauðgun út frá ofbeldi, hótunum eða misneytingu. Í engilsaxneskum rétti er því hins vegar öfugt farið, þ.e. algengt er að skilgreina nauðgun út frá hugtakinu samþykki.

Í þeim breytingum sem hér eru lagðar til er aðaláhersla lögð á hvort samræði eða kynferðismök hafi farið fram með vilja og samþykki þátttakenda. Til þess að ákvæðið fullnægi kröfum sem gerðar eru um skýrleika refsiheimilda er þar jafnframt að finna nánari skilgreiningu á hvenær samþykki telst liggja fyrir og hvenær ekki. Samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst hins vegar ekki liggja fyrir ef það er fengið með ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung, eða með því að beita blekkingum eða hagnýta sér villu viðkomandi um aðstæður. Við gerð frumvarpsins var m.a. litið til nýlegrar skýrslu sænskra stjórnvalda um aukna vernd kynfrelsis. Við skilgreiningu frumvarpsins á nauðgun er tekið mið af tillögu sem þar kemur fram um breytingu á nauðgunarákvæði sænsku hegningarlaganna. Hvað varðar hugtakið samþykki í 1. gr. frumvarpsins er ljóst að samþykki til þátttöku í samræði eða öðrum kynferðismökum verður að tjá með orðum eða annarri ótvíræðri tjáningu. Í því felst að gefa þarf samþykki til kynna eða að virk þátttaka í tiltekinni athöfn verði túlkuð sem samþykki af hálfu annars eða annarra þátttakenda. Ekki verður gerð krafa um að þátttakandi mótmæli eða sýni mótstöðu gagnvart þátttöku í kynferðislegri athöfn. Þá getur algert athafnaleysi heldur ekki verið túlkað sem vilji til þátttöku. Af kynfrelsi leiðir að eðlilegt er að þátttakandi í kynferðislegri athöfn geti hvenær sem er skipt um skoðun um þátttöku sína. Slík skoðanaskipti verður að tjá með orðum eða annarri tjáningu þannig að ætla megi að annar eða aðrir þátttakendur verði þessi áskynja.

Ekki er talið æskilegt að skilgreina of nákvæmlega með hvaða hætti samþykki skuli tjáð. Hætta er á að löggjöf sem setur nákvæm skilyrði fyrir því hvernig einstaklingar skuli tjá sig verði ekki í samræmi við hvernig mannleg samskipti eru í raun. Einnig er gert ráð fyrir að samþykki liggi ekki fyrir ef það er fengið með því að beita blekkingum eða með því að hagnýta sér villu viðkomandi um aðstæður.

Þá er rétt að undirstrika að þrátt fyrir að lagðar séu til breytingar á 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga er ekki lagt til að breyta huglægum skilyrðum nauðgunarbrota. Þannig verður ásetningur áfram saknæmisskilyrði samkvæmt 1. mgr. 194. gr., samanber 18. gr. almennra hegningarlaga. Þar kemur fram að verknaður sem refsing er lögð við í hegningarlögunum sé ekki saknæmur nema hann sé unninn af ásetningi eða gáleysi. Fyrir gáleysisbrot skuli því aðeins refsa að sérstök heimild sé til þess í lögunum. Ekki er lagt til að slík heimild verði í 1. mgr. 194. gr. og því verður nauðgun ekki refsivert brot nema hún sé framin af ásetningi.

Frú forseti. Frumvarp þetta er liður í því að breyta viðhorfum sem feðraveldi fortíðar hefur skapað og eru enn ríkjandi eða eimir sterkt af á mörgum stöðum. Með frumvarpinu er horfið frá þeim karllægu sjónarmiðum sem endurspeglast víða að við tilteknar aðstæður eigi karlmaður nánast rétt á kynlífi með konu. Má í því sambandi benda á þau viðhorf að tiltekin hegðun eða klæðaburður kvenna séu nánast ögrun eða tilboð um kynlíf sem karlmenn geti ekki staðist. Þá eru þau viðhorf lífseig að þegar fólk er í sambandi, hvort sem það er innan hjónabands eða utan, ryðji það með einhverjum hætti úr vegi kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétti þegar kynlíf á í hlut. Klámvæðing og hlutgerving kvenna ýtir enn frekar undir að líta á konur sem kynverur fyrst og fremst sem séu með einhverju móti til þess eins að svala þörf karla fyrir kynlíf.

Frú forseti. Það er skylda okkar hv. þingmanna að lögin séu sanngjörn og sporni gegn úreltum viðhorfum. Það á svo sannarlega við í þessu efni og til þess er þetta frumvarp lagt fram. Flutningsmenn binda vonir við vandaða umfjöllun hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd að lokinni þessari umræðu og að hv. þingheimur sameinist um að veita því brautargengi þannig að það verði sem fyrst að lögum.