146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

almenn hegningarlög.

419. mál
[23:53]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. flutningsmanni fyrir framsögu sína. Ég tel þetta mál vera allrar athygli vert. Ég á eftir að kynna mér það betur og tek væntanlega þátt í umræðum um það, bæði í allsherjar- og menntamálanefnd sem og í 2. umr. þegar ég hef gefið mér betri tíma til þess að kanna nákvæmlega hvað í því felst. En mér þykir tilefni til þess að spyrja hv. þingmann um eitt, þ.e. síðustu setninguna í greininni sem hv. þingmaður leggur til, þ.e. 1. gr. frumvarpsins, en þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.“

Mér þykir þetta svolítið undarleg skilgreining á ofbeldi. Ég þykist skilja hvert verið er að fara með þessari skilgreiningu, en hins vegar þykir mér hún ekki algjörlega í samræmi við það sem á undan kemur í frumvarpinu þar sem segir, með leyfi forseta:

„Samþykki telst ekki liggja fyrir ef það er fengið með ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung, eða með því að beita blekkingum eða hagnýta sér villu viðkomandi um aðstæður.“

Mér þykir því tilefni til að spyrja hv. þingmann hvort það sé einhver sérstök ástæða fyrir nákvæmlega þessu orðalagi á skilgreiningu ofbeldis. Væri mögulega hægt að skýra þetta ákvæði betur, t.d. með því að bæta inn orðunum „meðal annars“, eða að útskýra aðeins betur að þetta sé ekki tæmandi upptalning á því hvað teljist til ofbeldis?