146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

Brexit og áhrifin á Ísland.

[10:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þakkir til málshefjanda í þessari umræðu fyrir að taka þetta mál á dagskrá. Við erum auðvitað í þeirri stöðu að vera ekki beinir gerendur í úrsögn Breta úr Evrópusambandinu og höfum ekki áhrif á það með beinum hætti hvernig Bretar og Evrópusambandið semja um þau mál. Það sem fyrir okkur liggur er hins vegar að gæta íslenskra hagsmuna sem eru verulegir, eins og margir ræðumenn hér hafa komið að, enda er Bretland mikilvægasta viðskiptaland okkar ef tekin eru einstök lönd. Samskiptin eru miklu víðtækari en nemur viðskiptunum, þannig að huga þarf að fleiri þáttum og alveg gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að við séum vel á verði og gætum hagsmuna okkar þegar línur fara að skýrast.

Eins og hæstv. utanríkisráðherra hefur rakið hafa þegar verið stigin mikilvæg skref til þess að undirbúa, getum við sagt, íslenska stjórnkerfið og íslensku utanríkisþjónustuna undir þetta verkefni. Því ber að fagna. Því ber jafnframt að fagna að áfram verði haldið á þeirri braut. Það skiptir máli að við nýtum þá möguleika sem við höfum, bæði á framkvæmdarvaldsstiginu, en ég nefni það líka að það skiptir máli á þingmannavettvangi að við komum sjónarmiðum á framfæri.

Ég verð að segja fyrir mig að samkvæmt minni reynslu af samskiptum við breska stjórnmálamenn á undanförnum misserum hef ég ekki orðið var við annað en mikinn skilning og áhuga á því að finna farsæla lausn á samskiptum Íslands og Bretlands eftir að þessi breyting tekur gildi.