146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

Brexit og áhrifin á Ísland.

[10:57]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir þessa mikilvægu umræðu, sem nálgast má út frá mörgum sjónarhornum. Eitt þeirra er hvaða lærdóm við á Íslandi getum dregið af Brexit og þýðingu þessarar afdrifaríku þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir lýðræðið, þá sér í lagi beint lýðræði. Ef það er eitthvað sem Brexit hefur sýnt okkur hér á Fróni er það hversu hörmulegar afleiðingar það getur haft að rækta ekki lýðræðið og undirstöður þess í samfélaginu.

Fyrst og fremst vísa ég til lýðræðisvitundar og lýðræðisþátttöku í samfélaginu. Brexit sýndi fram á að ungt fólk tók síður þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu sem hafði þó stórkostlegar afleiðingar á framtíð þess. Sömuleiðis sýndi þessi afdrifaríka atkvæðagreiðsla okkur að val kjósenda byggðist að miklu leyti á vanþekkingu, sem lýsti sér meðal annars í því að Bretar slógu einna helst inn leitarorðin „Hvað er Evrópusambandið?“ á leitarvélinni Google að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslunni um útgöngu þjóðarinnar úr sambandinu.

Þá má einnig nefna að aðdragandi þjóðaratkvæðagreiðslunnar einkenndist af megnri útlendingaandúð þar sem ítrekað var gefið til kynna að Brexit fæli í sér getu Breta til að vísa úr landi þeim innflytjendum sem gert hafa Bretland að heimalandi sínu.

Ef það er tekið saman eru þetta þættir sem ættu að vera okkur víti til varnaðar. Okkur þykir vænt um lýðræðið og við getum tekið höndum saman og rennt sterkari stoðum undir lýðræði okkar, lýðræðisþátttöku og -vitund. Við getum eflt lýðræðisfræðslu í grunnskólum, menntaskólum og háskólum, eflt lýðræðisvitund í samfélaginu öllu með markvissri fræðslu og samráði og fundum víða um landið. Við getum einsett okkur að efla lýðræðisþátttöku ungs fólks sérstaklega, því að rétt eins og í Bretlandi fer þátttaka ungs fólks á Íslandi í kosningum minnkandi. Það hlýtur að vera okkur öllum áhyggjuefni sem bregðast verður við með markvissum hætti.

Loks get ég ekki látið hjá líða að minnast á nýju stjórnarskrána okkar sem samþykkt var með þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2012 að skyldi leggja grunn að nýju og betra lýðræði hér á landi. Kjósendur í Bretlandi kusu margir gegn eigin hagsmunum þar sem þeim þóttu þeir vera afskiptir og töldu að atkvæði þeirra hefðu ekki áhrif á samfélagið sem þeir byggju í. Ef við höldum áfram að virða vilja þjóðarinnar að vettugi er ekki loku fyrir það skotið að við munum sjálf upplifa hnignun lýðræðis á Íslandi með ófyrirséðum afleiðingum.

Látum okkur lærdóm (Forseti hringir.) Breta að kenningu verða. Vinnum að lýðræðinu, ræktum það með okkur og virðum vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá. Lýðræðið á það skilið.