146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

frádráttarbær ferðakostnaður.

159. mál
[11:16]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Ég held að hér séum við að ræða mál sem getur skipt miklu máli í því að reka alvörubyggðaáætlun. Þær breytingar sem eiga sér stað á landsbyggðinni sérstaklega eru að mörgu leyti mjög miklar, allt að því dramatískar er hægt að segja, þar sem við horfum fram á að þær atvinnugreinar sem á undanförnum áratugum og jafnvel enn lengri tíma hafa stuðlað að sem mestri byggðafestu, grundvallargreinar eins og sjávarútvegur og landbúnaður, munu ekki gera það á næstu árum og áratugum. Því verður að horfa til fjölbreyttari atvinnutækifæra úti um allt land. Það getur þýtt að um verði að ræða meiri flutning á milli byggðarlaga á vinnuafli innan einhverra skilgreindra atvinnusvæða.

Þetta verður ein af þeim áherslum sem verður lögð í drögum að nýrri byggðaáætlun fyrir 2018–2024 sem snertir lækkun kostnaðar vegna daglegra ferða milli heimilis og vinnustaðar í dreifbýli, smærri þéttbýlisstaða. Vinnusóknarsvæði þar sem fólk getur sótt vinnu daglega frá heimili hafa stækkað með bættum samgöngum. Markmið slíkrar aðgerðar yrði að auðvelda fólki utan höfuðborgarsvæðisins að sækja vinnu til og frá heimili sínu.

Lagt er til í þeirri áætlun að settur verði á fót starfshópur sem falið verði að semja reglur um þá framkvæmd að þeir íbúar sem búa á styrkjasvæði ESA-kortsins fái hluta kostnaðar við ferðir til og frá vinnu endurgreiddan í gegnum skattkerfið. Við mótun nýrrar byggðaáætlunar voru m.a. haldnir fundir með samráðsvettvangi sóknaráætlana í hverjum landshluta. Þar kom fram mikil áhersla á samgöngur sem grundvallarforsendu fyrir atvinnu- og þjónustusókn landsmanna. Vegasamgöngur innan landshlutanna ráða mörkum vinnusóknarsvæða, svæða þar sem íbúar geta ferðast daglega milli heimilis og vinnustaðar, sem og þjónustusvæða, svæða þar sem íbúar geta sótt grunnþjónustu.

Í samgönguáætlun er sterkur samhljómur við áherslur fyrri byggðaáætlana og þær áherslur sem hafa komið fram á fundum um nýja byggðaáætlun. Almenningssamgöngur eru í raun ekki valkostur sem ferðamáti nema í stærsta þéttbýli og nágrenni þess. Endurgreiðsla í formi frádráttar frá skatti er fær leið til að koma til móts við óhjákvæmilegan ferðakostnað og styður búsetu í dreifbýli og smærra þéttbýli. Það eru mörg fordæmi um það eins og hv. þingmaður kom inn á.

Eitt meginatriða byggðaáætlunar er að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu. Ég vitnaði áðan í byggðakort ESA og það er ágætt að reifa aðeins fyrir þá sem þekkja það ekki vel hvað það er. ESA-kortið er svokallað byggðakort, er samþykkt af Eftirlitsstofnun EFTA, og tilgreinir þau svæði Íslands þar sem veita má byggðaaðstoð. Þar gilda leiðbeiningarreglur ESA um byggðaaðstoð. Á þeim svæðum getur ESA einnig heimilað að Ísland veiti byggðaaðstoð. ESA-kortið skilgreinir í raun allt landið utan höfuðborgarsvæðisins sem eitt svæði í því samhengi. Þetta kemur einnig inn á svokölluð lög um ívilnun fyrir uppbyggingu atvinnutækifæra, nýfjárfestingar í atvinnulífi, hvort sem um er að ræða erlenda eða innlenda aðila. Þar er miðað við þetta byggðakort sem hefur verið samþykkt og er í raun og veru mjög víðtækt fyrir okkar stóra land.

Ég er að láta skoða í ráðuneytinu hvort tilefni sé til að við búum til okkar eigið byggðakort innan þessa byggðakorts ESA þar sem við horfum í raun með sterkari hætti til þeirra svæða sem einangraðri eru og þar sem atvinnuuppbygging er erfiðari. Ég held að það sé að mörgu leyti óraunhæft að bera saman stöðuna á t.d. Suðurnesjum og víða annars staðar á landinu og full ástæða sé til að skoða hvort við eigum að byggja hvata til þess að þau svæði sem eiga frekar undir högg að sækja fái ríkari aðstoð en önnur sem eru kannski nær höfuðborgarsvæðinu og ekki í eins mikilli þörf og raun ber vitni fyrir uppbyggingu í til að mynda atvinnulífinu.