146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

Alexandersflugvöllur.

179. mál
[11:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort hann ætli að beita sér fyrir starfsemi á Alexandersflugvelli og að hann verði varaflugvöllur fyrir Akureyrarflugvöll. Sú fyrirspurn sem ég lagði fram á Alþingi í vetur hljómar á þennan veg, en mig langar jafnframt að nýta tækifærið og spyrja hvort horft sé til þess hvort flugvöllurinn gæti orðið varaflugvöllur jafnvel fyrir Reykjavíkurflugvöll og Egilsstaðaflugvöll.

Eins og margir vita hefur orðið gríðarleg aukning í ferðamannastraumi til landsins. Sá ferðamannastraumur kemur að mestu leyti gegnum Keflavíkurflugvöll. Þar, eins og við vitum öll, er orðið gríðarlegt álag vegna þessa. Það er ábyrgðarfullt að líta til annarra gátta inn í landið, það hefur reyndar verið gert og ýmis vinna farið fram um það og einhver flugfélög hafa lent þar í einhverjum tilvikum.

Við hv. þingmenn Framsóknarflokksins leggjum til að unnið verði að stefnumótun í ferðaþjónustu og á þeirri leið væri skynsamlegt að okkar mati að nýta betur þá flugvelli sem eru á Akureyri og Egilsstöðum. Sem hvata fyrir flugfélög til að nota þá flugvelli meira væri hægt að setja lægri komugjöld inn á Akureyri og Egilsstaði. Ef þetta næði fram að ganga væri mjög æskilegt að við hefðum varaflugvelli til staðar. Þá væri Alexandersflugvöllur í Skagafirði mjög ákjósanlegur til að sinna því verkefni, en eins og við vitum líka er stutt á milli Akureyrar og Skagafjarðar.

Alexandersflugvöllur er vel staðsettur. Þar er aðflug mjög gott. Fjörðurinn er víður og lítið um hindranir. Flugvöllurinn vísar í norður/suður, sem eru einnig víkjandi vindáttir á þeim slóðum og þá er staðsetning vallarins hagstæð með tilliti til snjóa.

Það gæti því verið ávinningur að því að byggja Alexandersflugvöll upp sem varaflugvöll. Þá er augljóst að slíkur flugvöllur mun þjóna Akureyri vel sem varaflugvöllur og tryggja og treysta þá mikilvægu starfsemi sem þar er rekin í sambandi við ferðaþjónustu og flug almennt.

Í því samhengi þarf einnig að nefna sjúkraflugið, en það er mikilvægur þáttur í okkar heilbrigðisþjónustu.

Ég endurtek því það sem ég byrjaði á og spyr hæstv. samgönguráðherra hvort hann ætli að beita sér fyrir starfsemi á Alexandersflugvelli og að hann verði varaflugvöllur fyrir Akureyrarflugvöll, eins og fyrirspurnin hljómar upp á. Einnig spyr ég hvort Alexandersflugvöllur geti orðið varaflugvöllur fyrir Reykjavíkurflugvöll og Egilsstaðaflugvöll og hvort unnið sé að því.