146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

viðurkenning erlendra ökuréttinda.

300. mál
[11:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég gæti nú talað við hann um samgöngumál í nokkuð marga daga, um vegakerfið okkar og allt það. En ég ætla að reyna að halda mig við það sem ég var að velta fyrir mér, þ.e. ökuréttindi. Það getur haft margs konar afleiðingar að ekki eigi að gera auknar kröfur, eða finna leiðir til að ganga t.d. úr skugga um fölsun á alþjóðlegum skírteinum. Við þekkjum það menn kaupa sér prófgráður, ekki bara í háskólum. Ég veit um dæmi þar sem maður, búsettur í Danmörku, keypti sér ökuskírteini fyrir 200 dollara, það var ekki flóknara en það. Honum þótti engin ástæða til að taka ökupróf. Einhverjir hafa slíkt viðhorf en aðrir ekki, en í ljósi þess hvernig ástandið er hjá okkur er varasamt að geta ekki kannað það með óyggjandi hætti hvort skírteini séu raunverulega í gildi. Svo er þetta auðvitað menningarmunur, ég ætla ekki að horfa fram hjá því. Ég er ekkert viss um að ég yrði mjög flink í umferðinni í Kína. En það breytir því ekki að við verðum að bregðast við á einhvern hátt.

Ég tek undir það að heilmála þarf veglínurnar mjög víða þannig að það samsvari alþjóðlegum stöðlum. Ég ætla Vegagerðinni það ekki að hafa af sparsemi ekki látið mála þar sem öryggi er verulega ábótavant eða ástæða hefur þótt til að gera það sérstaklega.

Við þurfum hins vegar að velta því fyrir okkur að skírteinin okkar gilda til dæmis ekki í Kína. Það er dálítið áhugavert að velta því fyrir sér. Því hefur verið kastað fram að vegna fjölgunar slysa (Forseti hringir.) séu líkur á því að iðgjöld lögbundinna bílatrygginga hækki hjá hinum almenna Íslendingi. Við sem neytendur þurfum að vera á varðbergi hvað það snertir.