146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

diplómanám þroskahamlaðra í myndlist o.fl.

475. mál
[11:59]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina.

Því er fyrst til að svara að í samræmi við þjónustusamninginn sem er í gildi á milli Fjölmenntar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins samdi Fjölmennt og semur við ýmsar menntastofnanir um námskeiðahald fyrir sína markhópa. Árið 2015 gerði Fjölmennt meðal annars samning við Myndlistarskólann í Reykjavík um tveggja ára diplómanám í myndlist með það fyrir augum að einn hópur gæti lokið námi. Þessi samningur var tilraunaverkefni til tveggja ára. Haustið 2016 var það mat Fjölmenntar á fjárhagsstöðu miðstöðvarinnar að ekki yrði hægt að styrkja þetta nám áfram.

Í gildi er þjónustusamningur milli ráðuneytisins og Myndlistarskólans í Reykjavík sem rennur út 30. júní á næsta ári. Í þeim samningi eru engin ákvæði um diplómanám í myndlist fyrir fólk með þroskahömlun. Þess vegna er þessi samningur sérstakur á milli Fjölmenntar og Myndlistarskólans. Það er rétt, sem hv. þingmaður nefndi, að Myndlistarskólinn sendi inn erindi til ráðuneytisins í febrúar, þann 17. En ég þekki ekki þá tölu, 6 milljónir, sem hv. þingmaður nefndi hér áðan. Þvert á móti minnir mig að það sé talan sem Fjölmennt greiðir Myndlistarskólanum en Myndlistarskólinn fari fram á tvöfalda þá upphæð, eða hátt í 12 milljónir, fyrir tvö ár.

Ég vil halda því til haga í þessu sambandi að samningar við einkaaðila verða að hafa réttan aðdraganda. Þeir verða að vera faglega uppbyggðir og fjármögnun tryggð. Regluverkið, sem okkur er uppálagt að vinna eftir, kveður á um það. Ekki liggur fyrir stefnumótun á þessu sviði né heldur þarfagreining. Hvort tveggja þarf að liggja fyrir áður en ákvörðun er tekin um hvort fella eigi diplómanámið inn í endurskoðaðan samning við skólann.

Ég hef enga ástæðu til að draga í efa gæði þess starfs sem Myndlistarskólinn í Reykjavík hefur byggt upp í myndlist fyrir fólk með þroskahömlun. Þvert á móti. Ég vil ekki með neinum hætti gera lítið úr stöðu málsins. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að engar sérstakar heimildir eru til þess fyrir ráðherra, hvorki í fjárlögum ársins né í regluverkinu, að taka þetta mál til einhverrar sérstaklega þóknanlegrar meðhöndlunar honum einum í hag. Því síður liggja fyrir sérstakar fjárheimildir sem unnt er að styðjast við í þessu efni.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður hvort ráðherra sjái fyrir sér breytingar á hlutverki Fjölmenntar þegar þjónustusamningur um reksturinn rennur út um næstu áramót. Samkvæmt vinnulagi við endurskoðun þessara samninga eiga viðræður um það að hefjast í haust. Í slíkum viðræðum verður farið yfir hlutverk og markmið og önnur ákvæði samningsins eins og almennt er gert við endurskoðun þjónustusamninga. Í því sambandi vil ég að einfaldlega verði látin fara fram greining á þörfum og eftirspurn eftir þjónustunni, athugun á því hvernig hún verður fjármögnuð. Það er okkar sameiginlega verkefni að nýta opinbert fjármagn í þessu skyni afskaplega vel. Ég get alveg lýst þeirri skoðun minni að það væri æskilegt að geta komið þessum þáttum fyrir en það tengist að sjálfsögðu síðustu spurningu hv. þingmanns um það hver skoðun mín sé á gildi símenntunar fyrir fatlað fólk og hvernig ég telji að standa eigi að því með tilliti til fjármögnunar og framkvæmdar.

Það efast enginn um mikilvægi þess að fatlað fólk eigi kost á gæðamenntun, hvort sem er á framhaldsskólastigi eða að því loknu. Það liggur fyrir að námsleiðir eða námskeið að loknu fjögurra ára námi á starfsbrautum fyrir fatlaða nemendur í framhaldsskólum eru af afar skornum skammti í dag. Eins og vitað er er lagagrunnur fyrir slíkt nám mjög veikur. Hann er helst að finna í lögum um framhaldsfræðslu. Í því sambandi tel ég, og hef raunar rætt í ráðuneytinu hjá mér, tímabært að hefja heildarendurskoðun á löggjöf um fullorðinsfræðslu á Íslandi. Slík endurskoðun gæti tekið til ýmissa þátta eins og íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur, lýðfræðslu, sem er annað heiti yfir lýðháskóla eins og sumir kalla, en síðast en ekki síst að styrkja grunninn undir námið fyrir fatlaða fullorðna einstaklinga. Þetta eru hugmyndir sem að mínu mati væri vel hægt að útfæra og taka til umræðu í tengslum við endurskoðun á lögum nr. 27/2010, um framhaldsfræðslu. Ég tel, í ljósi þess sem nú er að koma upp, sérstaklega í sambandi við nám fyrir fatlaða einstaklinga, að það sé löngu tímabært og raunar áríðandi að hefja þá endurskoðun. Jafnframt yrði að sjálfsögðu að greina þörf fyrir og meta kostnað við núverandi fyrirkomulag og reyna að sjá fyrir sér hvort og hvernig auka mætti aðgengi og ekki síst fjölbreytni í námi fyrir fatlaða einstaklinga.