146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

diplómanám þroskahamlaðra í myndlist o.fl.

475. mál
[12:07]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Þetta snýst auðvitað um að gera vel við fólk með þroskahömlun eða ekki. Við getum horft til ART-verkefnisins á Selfossi sem hefur verið undir Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga. Það hefur kostað fáeina tugi milljóna króna hvert ár og það tókst að tryggja fjármögnun þess núna 2016–2017.

Þegar kemur að diplómanáminu á það ekki að vera spursmál um form heldur vilja og árangur í bættum lífsskilyrðum þessa fólks. Þetta eru, eins og komið hefur fram, 12 milljónir til tveggja ára. Víða er vissulega farið fram á einhvers konar björgunaraðgerðir í alls konar verkefnum en þetta er með þeim hætti að það á að vera hægt. Ég vísa þá til orða hv. þm. Óla Björns Kárasonar, sem talaði hér á undan, um að við getum fundið þetta fé. Það er til dæmis til eitthvað sem heitir sérframlag frá ríkisstjórn og ég hvet til þess að það verði athugað.