146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

diplómanám þroskahamlaðra í myndlist o.fl.

475. mál
[12:09]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka sömuleiðis fyrir þessa umræðu. Við erum að tala um skiptimynt í krónum talið sem verður þó til þess að tryggja ákveðin mannréttindi. Það er auðvitað það sem málið snýst um. Það er ánægjulegt að heyra að hæstv. ráðherra er að velta því fyrir sér að endurskoða lagarammann sem er utan um þetta og fleira.

Það er mjög mikilvægt að fatlaðir einstaklingar, þeir sem hafa einhverja þroskahömlun, hafi tækifæri til að halda áfram námi eftir að framhaldsskóla lýkur. Eftir að hafa starfað með slíku fólki finn ég að þetta er því mikilvægt samfélag og oft er ekki margt annað að hverfa til eftir að námi í framhaldsskóla lýkur. Þess vegna er afar mikilvægt að tryggja fjölbreytt úrræði um allt land, ekki bara horfa til eins tiltekins skóla hér heldur horfa til þess að við getum séð nemendum sem ekki fara beint inn á hið hefðbundna háskólastig fyrir tækifærum til að koma víða við og halda áfram að mennta sig.