146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

diplómanám þroskahamlaðra í myndlist o.fl.

475. mál
[12:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þátttökuna í þessari umræðu og öðrum þingmönnum og ráðherranum að sjálfsögðu fyrir svörin svo langt sem þau náðu. Mér finnst þetta liggja þannig að ráðherrann geti stigið inn í þessa stöðu nákvæmlega núna, eins og hún lítur út, með fulltingi þingsins. Ég heyri á hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar að hann telur að slík samstaða sé fyrir hendi, eða gæti verið fyrir hendi, við sérstaka afgreiðslu á Alþingi.

Mig langar að vita hvort hæstv. ráðherra vill ljá máls á slíkri leið.

Mig langar líka að nefna það, vegna þess að hv. þm. Óli Börn Kárason var með skens í garð þeirrar sem hér stendur, að fyrir liggur að Myndlistaskólinn í Reykjavík er sjálfseignarstofnun og má ekki taka sér arð og gerir samninga við ríkið um einstök verkefni, m.a. þetta.

Mig langar líka til að nefna, vegna þess að hæstv. ráðherra talar um að ekki liggi fyrir stefnumótun í þessum málaflokki, þ.e. hvað varðar þessar tilteknu brautir, að hin raunverulega stefnumótun í málinu er samningurinn um réttindi fatlaðs fólks. Það er stefnumótun sem við höfum undirgengist og þar á meðal hæstv. ráðherra. Ráðherrann verður að axla ábyrgð á sínum hluta þess samnings með því að sýna með myndarlegum hætti fram á að í raun sé um að ræða jafnrétti til menntunar óháð fötlun, rétt eins og annarra félagslegra þátta.

Að lokum vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort og þá hvenær hann hyggist svara erindi Myndlistaskólans í Reykjavík í samræmi við stjórnsýslulög, en það liggur inni í ráðuneytinu frá 17. febrúar síðastliðnum.