146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

afgreiðsla meiri hluta nefndar á áfengisfrumvarpinu.

[15:04]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég get ekki annað en komið hér og tekið undir orð hv. þingmanna sem hafa talað. Það er mjög alvarlegt að meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar hafi rifið málið út úr nefndinni án þess að umsagnir bærust frá hv. velferðarnefnd Alþingis. Hér er verið að sópa sannleikanum undir borðið. Hv. framsögumenn þessarar tillögu hlusta ekki á þær staðreyndir sem mikilvæg samtök og embætti í þjóðfélaginu hafa bent á. Má þar nefna embætti landlæknis og aðra aðila sem hafa bent á tölulegar staðreyndir sem geta haft þjóðhagsleg og samfélagsleg áhrif á þjóðfélag okkar. Ég óska þess að þetta frumvarp fari til baka til nefndarinnar og fari aftur í umsagnarferli. Það er búið að breyta frumvarpinu gífurlega mikið. Við verðum að fá að vita hvað þessir hagsmunaaðilar og embætti hafa um breytt mál að segja. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)