146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

afgreiðsla meiri hluta nefndar á áfengisfrumvarpinu.

[15:05]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Það er að verða dálítið þreytt tilbrigði við stef, að þurfa að koma hingað reglulega upp í pontu til að ræða um vinnubrögð meiri hlutans, (Gripið fram í: Fundarstjórn forseta.) þessa nýja stjórnarmeirihluta sem boðaði ný og breytt vinnubrögð í hvívetna en beitir svo aflsmunum sínum trekk í trekk. Hæstv. forseta getur verið skemmt yfir því. Það eru kannski vinnubrögð sem hann þekkir. En þetta eru ekki vinnubrögðin sem voru boðuð. Það er alveg fráleitt að breyta jafn umdeildu máli svo mikið sem raun ber vitni — þetta er í raun og veru bara nýtt mál — og beita svo aflsmunum til að rífa það út úr nefnd, í andstöðu við alla, og hafa ekki einu sinni tíma til að bíða eftir umsögnum sem meiri hlutinn sjálfur og nefndin sendi út. Hvurs lags vinnubrögð eru þetta? Ég held að hæstv. forsætisráðherra væri kannski nær að sýna einu sinni smá auðmýkt og velta því fyrir sér hvernig standi á því að vinnubrögð (Forseti hringir.) hæstv. ríkisstjórnar og stjórnarmeirihlutans eru gagnrýnd svo víða.