146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

afgreiðsla meiri hluta nefndar á áfengisfrumvarpinu.

[15:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég tel þetta ekki góð vinnubrögð. Ég kem að þessu máli sem nefndarmaður í velferðarnefnd. Við vorum beðin um umsögn til allsherjar- og menntamálanefndar. Eðlilega. Málið hefði nú kannski upphaflega átt að ganga til velferðarnefndar. En hvað um það. Við vorum búin að eyða þó nokkrum tíma í þetta mál, fá talsvert af gestum fyrir nefndina. Síðan yfirtók vinnan við fjármálaáætlun störf okkar eins og annarra og við höfum ekkert af málinu frétt, fengum enga beiðni um að hraða umsögn okkar eða að til stæði afgreiðsla á því eða neitt í slíkum dúr. Þetta eru algerlega ólíðandi samskipti þingnefnda, algerlega fráleit vinnubrögð. Svo bætist við að málið er gerbreytt, sem hefði auðvitað átt að kalla á að það færi í nýja umsagnavegferð. Því er ekki hægt að mæla bót. Það hljóta allir að sjá svipinn á þessu. Ég verð að segja að það á ekki af þessu brennivín-í-búðir-máli að ganga, að ofan í koltapaðan málstað (Forseti hringir.) lætur hugsjónafólkið mikla sig hafa svona vinnubrögð.