146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

afgreiðsla meiri hluta nefndar á áfengisfrumvarpinu.

[15:19]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem brennivín í búðir kemur á dagskrá umræðunnar hér á Alþingi á vandræðalegum tíma fyrir stjórnvöld. Það er nú eftirminnilegt þegar það mál var rætt hér í janúar 2009 á Alþingi, þótti þá Sjálfstæðisflokknum það mikilvægasta mál þeirra daga, á meðan það blasti við öllum, fyrst okkur sjálfum og svo umheiminum, að lífið var flóknara en svo. Það er nefnilega þannig að núna er á dagskrá Alþingis umræða um sveltistefnu þessarar ríkisstjórnar. Það mál verður rætt í umræðu um ríkisfjármálaáætlun næstu daga, því að hér munum við ekki ræða brennivín í búðir. Það er fráleitt að ræða það mál sem ekki er lokið af hendi hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Ég treysti því að hæstv. forseti setji þetta mál ekki á dagskrá, enda er um það bullandi ágreiningur og það er ekki unnið með fullnægjandi hætti út úr allsherjar- og menntamálanefnd, (Forseti hringir.) sem marka má sérstaklega af þeirri staðreynd að hv. velferðarnefnd hefur enn ekki skilað umsögn þó að formaður velferðarnefndar (Forseti hringir.) sé á málinu og um leið varaformaður allsherjar- og menntamálanefndar. Þá vil ég (Forseti hringir.) skora á hana að horfast í augu við sínar þinglegu skyldur og ljúka við umsögn nefndarinnar eins og henni var falið.