146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

afgreiðsla meiri hluta nefndar á áfengisfrumvarpinu.

[15:23]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér blasir við afar undarleg staða þegar mál nr. 106, áfengisfrumvarpið, hefur verið tekið úr hv. allsherjar- og menntamálanefnd án þess að aðrar þingnefndir hafi skilað af sér álitum sem þó var beðið um. Þessar nefndir hafa eytt töluverðu af sínum tíma og tíma umsagnaraðila, sem leggja oft mikið á sig til að koma til fundar við þingnefndir, í þetta mál. Síðan hafa verið gerðar grundvallarbreytingar á málinu sem ég þykist nokkuð viss um að einhverjir af þeim aðilum sem standa á bak við 93 umsagnir um málið vilja skoða frekar. Þær breytingar hafa augljóslega, það þarf ekki að skoða lengi til að sjá það, ekki tekið tillit til allra þeirra umsagna sem þar koma fram. Því fer fjarri.