146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

afgreiðsla meiri hluta nefndar á áfengisfrumvarpinu.

[15:27]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég held að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson hafi komið að kjarna málsins, að þessi vinnubrögð hafi verið til að hægt væri að sýna breytingartillögurnar. Það verður auðvitað að gera athugasemd við slík vinnubrögð. Hvernig er farið með tíma okkar þingmanna, ég segi sérstaklega tíma hv. þingmanna sem sitja í hv. velferðarnefnd, fyrst ekki er beðið eftir umsögn þeirra? Það er gríðarlega alvarlegt að svona mál sé tekið út úr nefnd þar sem er ekki búið að fjalla um lýðheilsuþáttinn, því að hann er risastór í þessu máli. Þess vegna er ekki annað hægt en að gera alvarlegar athugasemdir við að svona sé unnið og koma því skýrt til skila að ekki verði haldið áfram með þetta mál á þessu þingi.