146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

afgreiðsla meiri hluta nefndar á áfengisfrumvarpinu.

[15:29]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég má til með að taka undir þá gagnrýni sem hefur komið fram frá hv. þingmönnum sem hafa talað um þau vinnubrögð sem hafa verið ástunduð. Ég verð á sama tíma að lýsa yfir ákveðinni undrun minni á þeim vinnubrögðum þar sem þau eru á skjön við annars ágæta verkstjórn hv. formanns nefndarinnar sem hefur alla vega hingað til haft dagskrá nefndarfunda með þeim hætti að nefndarmenn hafi einhvers konar hugmynd um hvað verði á dagskrá og hvað standi til. Nú er þetta alveg ágætlega viðamikið nefndarálit. Því hefði verið hægt að láta okkur vita með einhverjum fyrirvara að til stæði að leggja þetta mál fyrir nefndina. Hins vegar var það svo að við fengum nefndarálitið korter í nefndarfund og málið var sett á dagskrá rétt áður en við komum á fundinn. Það að þetta mál hafi verið sett á dagskrá og tekið úr nefndinni með engum fyrirvara kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Slík vinnubrögð eru ekki til eftirbreytni. Ég vona að hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar láti þetta verða sín einu mistök í verkstjórn í allsherjar- og menntamálanefnd.