146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

afgreiðsla meiri hluta nefndar á áfengisfrumvarpinu.

[15:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er bara dæmigerð smjörklípuaðferð sem verið er að beita hérna. Við þekkjum hana úr Hádegismóum. Kannski hefur sá aðili haft samband við einhverja góða og bent þeim á þessa stórsniðugu aðferð til að reyna að gera málið vænlegra til áframhaldandi atlögu að þjóðinni og þinginu. Það er auðvitað bara verið að reyna að teikna þetta þannig upp. Við sjáum alveg í gegnum trixið á bak við það, að það sé þá eitthvað skárra að hafa áfengi í sérverslunum, það sé þá sambærilegt við það sem er í dag nema hvað einkaaðilar höndli með það. (Gripið fram í.) Já, já. Hvað gerist þá? Það verða ekki sérverslanir með áfengi á sömu stöðum og í dag, það vita allir. Þá kemur upp óánægja sem þeir ætla að nýta sér sem berjast fyrir að koma brennivíni í búðir, og krafa um að áfengi verði frekar selt í almennum verslunum, því að varla kemur ísbíllinn með brennivín út á land til að bjóða til sölu. Við sjáum alveg í gegnum þetta. (Forseti hringir.) Það er verið að reyna að fá fólk með sem verið hefur andvígt því að fá brennivín í búðir, að fá þetta í sérverslanir. Svo sér fólk að það gengur ekki upp og þá kallar fólk eftir brennivíni í búðir. Eða þannig. Er það ekki svo?