146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

málefni framhaldsskólanna.

[15:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég bendi hv. þingmanni á að stefnumörkun, ekki bara í framhaldsskólanum heldur á öllum skólastigum, á sér stað í lögum um viðkomandi skólastig og sömuleiðis í sérlögum, eins og í þessu tilviki um framhaldsskólann, ásamt því að aðalnámskrá segir nokkuð til um hverjar áherslur stjórnvalda eru hverju sinni.

Þegar rætt er um þá sameiningu sem er í athugun á vegum ráðneytisins, og lýtur að Tækniskólanum og Fjölbrautaskólanum við Ármúla, er það í mínum huga lögboðin skylda stjórnvalda að skoða með hvaða hætti stjórnkerfið á að takast á við þær miklu breytingar sem fram undan eru í framhaldsskólanum. Dettur einhverjum í hug að það að nemendum í framhaldsskólanum fækki nokkurn veginn um 600 á hverju ári næstu þrjú árin kalli ekki á einhverjar breytingar? Að sjálfsögðu gerir það það. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu gerir það það. (LRM: Sjálfskaparvíti.)