146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

United Silicon.

[15:42]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Málefni United Silicon hafa verið í brennidepli mánuðum saman. Þar er pottur brotinn, svo ekki sé meira sagt hvað ýmis mál varðar. 2. maí sl. lagði ég inn fyrirspurn til hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra varðandi ívilnandi United Silicon samkvæmt samningi sem gerður var við ríkið. Á morgun eru liðnir 15 dagar frá því að ég lagði inn fyrirspurnina þannig að ég bíð spenntur eftir svari.

Það er vissulega ekki á forræði hæstv. umhverfisráðherra sem er hér til svara. Fram kom í fréttum í gær að verksmiðja United Silicon var gangsett í gær og þar er verið að keyra upp allar græjurnar. Íbúasamtök í Reykjanesbæ eru ekki sérstaklega sátt. Einn af stofnendum hóps sem berst gegn starfsemi þessarar verksmiðju, Þórólfur Júlían Dagsson að nafni, segir í fréttum, með leyfi forseta:

„Það er ekki hægt að vera í tilraunastarfsemi með fólk.“

Þarna er um að ræða 14.000 manna byggð í næsta nágrenni. Mig langar til þess að spyrja ráðherrann hvort honum finnist við hæfi að vera með tilraunastarfsemi á 14.000 manns.