146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

auknar álögur á ferðaþjónustu.

[15:51]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Það er ágætt að fá upprifjun á þeim stefnumálum sem við höfum samþykkt í Sjálfstæðisflokknum. Hér er vísað til þess hvernig við horfum á skattlagningu og uppbyggingu grunnatvinnuveganna, sem ferðaþjónustan er vissulega orðin í dag. Sú breyting sem við vinnum með hér er ein af undirliggjandi forsendum í þessari langtímaáætlun og snýr að virðisaukaskattinum. Hún felur í sér annars vegar að það er fækkað þeim aðilum sem njóta góðs af neðra þrepinu og hins vegar felur breytingin í sér að við lækkum efra þrepið. Það er svo sannarlega stefna Sjálfstæðisflokksins að draga úr álögum. Það sem sést þegar menn skoða áhrif þessarar breytingar er að heildaráhrifin eru til þess að lækka verðlag í landinu, lækka almenna virðisaukaskattsþrepið niður í það lægsta sem gildir á Norðurlöndum. Það má segja að það felist í því ákveðin skattbyrðistilfærsla sem er frá heimilunum í landinu sem munu bera léttari skattbyrði eftir að breytingin hefur tekið gildi og meira á atvinnugrein sem virðist vera búin að slíta barnsskónum og hafa burði til að vera í hinu almenna skattkerfi. Þetta eru aðalatriðin um virðisaukaskattsbreytinguna sem ég tel vera í góðu samræmi við þær áherslur sem við höfum haldið á lofti í Sjálfstæðisflokknum og við höfum svo sem starfað með öðrum flokkum að því að draga úr undanþágum og auka skilvirkni virðisaukaskattskerfisins á undanförnum árum.

Síðan var spurt um álit meiri hluta fjárlaganefndar. Ég verð að segja að það kemur ekki á óvart að menn komi þeim sjónarmiðum þar á framfæri að heppilegast væri að breytingin tæki gildi um áramótin. En fjármálaáætlunin er ekki virðisaukaskattsfrumvarpið. Það er eingöngu (Forseti hringir.) verið að fjalla þar um undirliggjandi forsendur tekju- og gjaldaáætlunar og skiptingu niður á málefnasvið. Þessi umræða er tímabær þegar tekjuöflunarfrumvarpið lítur dagsins ljós.