146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

sjálfbær ferðaþjónusta og komugjöld.

[16:04]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða fyrirspurn. Komið var inn á margt áhugavert og mikilvægt þar. Ég tek undir með hv. þingmanni varðandi bílastæðagjöld, það er mjög gott skref, þau eru þá alla vega eitt verkfæri í þá kistu sem við þurfum saman á að halda, ríki, sveitarfélög og einkaaðilar. Mín sýn er sú að hvert svæði fyrir sig þurfi að verða sjálfbært. Ég held að bílastæðagjöld séu eitt skref á þeirri leið.

Það er rétt sem hv. þingmaður kom inn á, að sjálfbærnimarkmið er gott markmið. Við erum ekki komin á þann stað núna. Allir geta verið sammála um að það hljómar voða vel og að langtímastefnan eigi að innihalda það, en í mínum huga er það holur hljómur þar til einhverjar aðgerðir eru skýrar sem sýna okkur hvernig við náum þeim markmiðum og þeirri langtímasýn.

Ég get svarað þeirri spurningu játandi að þennan ramma vantar. Við eigum einfaldlega heilmikla vinnu eftir í því að ná skýrri stefnumörkun og heildarsýn í ferðaþjónustunni. Ég legg sjálf mikið kapp á það en ég nefni hér að það geri ég auðvitað ekki ein, ég geri mér grein fyrir því. Ég veit og vænti þess að þingheimur geri að líka. Það er nokkuð sem stjórnvöld og Alþingi þurfa að vinna saman. Við erum með margt í pípunum núna sem teiknast upp á næstu mánuðum og er þá ákveðnar forsendur fyrir frekari ákvarðanatöku. Ég vona að með haustinu getum við farið að sjá skýrari mynd og að ég komi með hana inn í þingið og við tökum á því máli.

Varðandi þolmarkarannsóknir og þá vinnu er ég hjartanlega sammála hv. þingmanni að þær vantar mjög. Þess vegna fagna ég skýrslubeiðni þingflokks Vinstri grænna. Það er gott innlegg í þá vinnu sem við erum að hefja. Við munum leggja mikið í þá vinnu og vinna (Forseti hringir.) það verk hratt og vel. Það vantar þá líka annars konar þolmarkarannsóknir, efnahagslegar og samfélagslegar, sem er síðan lifandi plagg sem við getum (Forseti hringir.) síðan unnið með áfram.