146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[16:28]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa komið hér á undan hvað varðar afstöðu okkar gagnvart þessu máli. Þótt vissulega sé breytingartillaga meiri hlutans til bóta, þ.e. að afnema það að erlendir nemar geti fengið lán til aðfaranáms, er það ákveðin tegund af mismunun sem verið er að afnema hér. Við höfum hins vegar áhyggjur af töluvert meiri mismunun sem er sú að verið sé að mismuna nemendum á grundvelli þess hvers konar skólaform þeir velja sér til þess að komast í háskóla, hvort sem það eru opinberlega reknir framhaldsskólar eða einkareknar stofnanir á vegum háskólanna. Af þeim sökum munum við sitja hjá við afgreiðslu þessa máls að svo stöddu en kalla inn breytingartillögur okkar til þess að ná einhvers konar sátt. Við vonumst líka til að fá álit ríkislögmanns á því hvort fyrirhugað frumvarp, sem fyrir okkur liggur, standist yfir höfuð stjórnarskrá og vonum við að það komist í hús fyrir afgreiðslu þessa máls á þingi.