146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð o.fl.

553. mál
[16:48]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fyrstu spurninguna þá er svarið nei. Það var ekki og hefur ekki verið rætt, en ég hygg hins vegar að hv. þingmaður hafi komið hér að mjög mikilvægu máli. Ég held að við eigum að taka það til umræðu með hvaða hætti við getum komið til móts við það fólk sem varð fyrir áföllum eftir hrun viðskiptabankanna eða fjármálakerfisins, og hvort það sé skynsamlegt eða hvort við getum með einhverjum hætti litið þannig á að fólk sem varð fyrir þeim áföllum að missa íbúðarhúsnæði sitt geti nýtt sér þessi ákvæði líkt og um fyrstu íbúðakaup væri að ræða. Að óathuguðu máli hefði ég haldið að það gæti verið góður hljómgrunnur fyrir einhverjum slíkum tillögum. Það er þá verkefni efnahags- og viðskiptanefndar að fjalla um það og við getum farið yfir það.

Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á hvernig hægt er að koma til móts við þá sem standa í byggingum eins og hv. þingmaður spyr mig um. Ég held að það sé einhver tæknileg framkvæmd sem hugsanlega væri hægt að koma til móts við. Ég skil vandann sem við blasir, en það kann að vera að menn þurfi þá að vera komnir eitthvað áleiðis. Ég kann ekki að svara hv. þingmanni öðruvísi. Þetta er (Forseti hringir.) eitt af því sem við hljótum að velta fyrir okkur. En ég hygg að ekki sé tími til þess núna.