146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð o.fl.

553. mál
[17:06]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þessi lög í góðri sátt? Þau voru kannski ekki í alveg eins góðri sátt og hv. þm. Eygló Harðardóttur minnti. Mig minnir að það hafi verið sjö mótatkvæði á lögin á sínum tíma og einhverjir sátu hjá af því að lögin sem um ræðir eða lagabreytingarnar voru umdeildar, ekki síst vegna þeirrar mismununar sem þær fela í sér. Ég finn mig knúna til að rifja þetta aðeins upp.

Þetta frumvarp sem hv. þm. Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, mælir fyrir kom ákveðna bakdyraleið inn í nefndina, þ.e. fjármála- og efnahagsráðuneytið óskaði eftir að því yrði skeytt inn sem breytingartillögu í annað frumvarp, sem hefði ekki verið gott vinnulag og hv. efnahags- og viðskiptanefnd var sammála um að það færi betur á því að þeir nefndarmenn sem styddu málið flyttu það sem sérstakt mál. Ég tel að ræða hv. þm. Eyglóar Harðardóttur hafi einmitt sýnt okkur hversu mikilvægt það er að frumvörp á Alþingi fái þrjár umræður, að ekki sé verið að henda inn málum á lokasprettinum í formi breytingartillagna við önnur óskyld frumvörp heldur einmitt að við reynum að vanda lagasetningu okkar. Þessar breytingar á lögunum um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð fela í sér og sýna okkur að lögin, sem eru tiltölulega ný af nálinni og hafa enn ekki tekið gildi, þarfnast þegar breytinga. Það vekur manni spurningar um þann æðibunugang sem er oft á lokadögum þingsins þar sem er verið að keyra mál í gegn án þess að fyrir öllu hafi verið séð. Hér er enn eitt málið sem við fáum fyrir þingið — og ekki það síðasta — þar sem við erum að taka afstöðu til atriða sem hefði farið betur á að ræða út þegar málin voru til umræðu.

Ég vil hins vegar rifja upp, og sú gagnrýni stendur, hvað var rætt sérstaklega þegar þessu fyrirkomulagi var komið á, þ.e. að þeir sem ekki hefðu áður átt fasteign gætu nýtt séreignarsparnað sinn skattfrjálst í allt að tíu ár til öflunar íbúðarhúsnæðis. Gildistaka þeirra laga er 1. júlí 2017. Umræðan um þetta mál snerist fyrst og fremst um hvort sá stuðningur sem var festur í lög dygði til þess að koma til móts við þann vanda sem ungt fólk upplifir á húsnæðismarkaði. Sá vandi er gríðarlegur.

Það er alveg hárrétt sem kom fram hjá hv. þingmanni sem talaði á undan mér, vandi ungs fólks sem hefur verið að brjótast inn á fasteignamarkað hefur fyrst og fremst falist í því að safna sér fyrir útborgun, fyrir fólk sem er að reyna að brjótast inn á séreignarmarkað. Margt ágætt var gert til að reyna að skjóta fótum undir leigumarkað á síðasta kjörtímabili og vitna ég þá til húsnæðisfrumvarpa sem hv. þm. Eygló Harðardóttir mælti fyrir sem félagsmálaráðherra og voru afgreidd í góðri sátt á þinginu. Vonandi sjáum við fram á að það umhverfi, heilbrigðara leiguumhverfi, fari að skila sér í húsnæðismálum ungs fólks.

En það sem er svo merkilegt er að þegar við skoðum stöðuna og ágætisskýrslu sem þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, núverandi forsætisráðherra, lagði fram á síðasta kjörtímabili um svokallaða kynslóðareikninga þá sýnir hún að ungt fólk hefur dregist aftur úr í tekjum síðustu áratugi. Sú skýrsla var lögð fram á síðasta þingi. Hér á landi lækkuðu tekjur yngsta hópsins mest en svo snerist þróunin við þegar komið var að aldurshópnum 35–39 ára.

Þegar íslensk gögn frá árinu 1990 og 2014 voru svo borin saman sást að tekjur yngri hópanna höfðu lækkað hlutfallslega miðað við meðaltal á undanförnum aldarfjórðungi en tekjur þeirra eldri höfðu hækkað. Gögnin sýndu lækkun aldurshópa milli 1990 og 2014 fram að 35–39 ára aldri en hækkun eftir það. Það var líka áhugavert að sjá að hæstu tekjum náði fólk á aldrinum 45–49 ára en ekki 40–44 ára eins og var árið 1990.

Fram kom í þessari skýrslu um kynslóðareikninga að til ársins 1997 þegar þróun kaupmáttar ráðstöfunartekna var skoðuð hreyfðust þessir ferlar alveg í sama takti. En eftir það tóku eldri hóparnir fram úr þeim yngri og bilið breikkaði fram að fjármálakreppunni. Eftir það dró aðeins úr bilinu en samt þannig að elstu hóparnir héldu forskotinu.

Það eru auðvitað sterkt tengsl milli kaupmáttar ráðstöfunartekna og húsnæðisverðs þannig að ef einstakir hópar dragast aftur úr, eins og hefur gerst með yngri hópana hér á landi, verða húsnæðiskaup þeim erfið. Gögn frá 2004 sýna að þung undiralda hefur verið í þá átt að hlutdeild eigin húsnæðis minnki hjá yngstu aldurshópum.

Eins og hefur komið fram og ég nefndi áðan er það sérstaklega getan til að safna fyrir útborgun sem hefur reynst mesti hjallinn að yfirstíga fyrir yngra fólk.

Það sem við gagnrýndum hins vegar, og fleiri, raunar bæði þingmenn Samfylkingar og Bjartrar framtíðar á þeim tíma og Vinstri grænna, var að stuðningi við þá sem eru að fara að kaupa sér fyrstu eign verður afar misskipt með lögunum. Þar tókum við undir með verkalýðshreyfingunni sem setti fram alvarlegar athugasemdir við þetta frumvarp, bæði Alþýðusamband Íslands og BSRB, í umsögnum sínum þar sem á það var bent í senn að þarna væri stuðningurinn mestur við tekjuhæstu einstaklingana í ljósi þess að þarna er verið að tala um skattfrjálsan séreignarsparnað sem eðli máls samkvæmt er hærri hjá þeim sem hæstar hafa tekjurnar. Það er í raun verið að ýkja upp þessa mismunun með því að hygla tekjuhæstu hópunum mest, því að þótt hlutfallið sé það sama hjá öllum eru krónurnar fleiri sem berast í skattafslátt til tekjuhæstu hópanna en tekjulægri hópanna. Þetta er risastór grundvallarbreyting sem var gerð á húsnæðisstuðningi sem miðar að því í raun að hið opinbera, í gegnum skattafslátt, styður við fólk til húsnæðiskaupa en styður meira í krónum talið við þá sem eru með hæstar tekjur og minna í krónum talið við þá sem eru með lægstar tekjur.

Hér höfum við haft ákveðin stuðningstæki við húsnæði. Þeim hefur heldur fjölgað á undanförnum árum. Við erum með vaxtabótakerfið, leiðréttinguna sem var í framkvæmd á síðasta kjörtímabili, stuðning við kaup á fyrstu íbúð, nýtt fyrirkomulag húsnæðismála og leiguhúsnæðis sem ég nefndi áðan. Það var talsverð vinna unnin í aðdraganda allra þessara mála, sem var aukið samráð og stefnumótun um framtíðarsýn í húsnæðismálum. Ég verð að segja að margt gott kom út úr þeirri vinnu. Ég vitna sérstaklega til húsnæðisfrumvarpanna sem ég nefndi áðan, um uppbyggingu á leiguhúsnæði. En um leið finnst mér þurfa að hafa í huga almenna heildarsýn í stuðningi við séreignarstefnuna, þá er ég ekki að tala um leiguhúsnæði heldur séreignarstefnuna, þ.e. vaxtabætur sem skertust verulega á síðasta kjörtímabili og halda áfram að skerðast í tíð núverandi ríkisstjórnar, leiðréttingin og þetta fyrirkomulag. Verið er að gera grundvallarbreytingar á því hvernig við styðjum við þá sem vilja fara inn á séreignarmarkað. Um þær breytingar var ekki pólitísk sátt og skorti kannski á að sú ágæta vinna sem var unnin í samráðshópi og skilaði sér í húsnæðisfrumvörpunum á sínum tíma skilaði sér líka inn í þennan þátt húsnæðiskerfisins.

Bent var á þegar málið var lagt fram að þetta væri í raun enn eitt stuðningskerfið við þá sem þurfa að afla sér húsnæðis og væri ekki til þess fallið að leysa vandann. Vandinn í raun er hinn gríðarlega óhagfellda launaþróun yngri kynslóða. Mér finnst mjög mikilvægt að við segjum hlutina eins og þeir eru. Þetta mál, eins og það var afgreitt síðast, eykur bilið á milli ungs fólks, fyrir utan hversu raunhæft það er að nokkur maður nái að safna sér fyrir útborgun út frá þeim hámarkstölum sem svo voru gefnar upp í frumvarpinu. Á það var bent að ef miðað væri við til að mynda miðgildi tekna mætti sjá að þessi stuðningur dygði vart til að kaupa íbúð á höfuðborgarsvæðinu. Hægt er að vitna til talna Hagstofunnar frá þessum tíma, í fyrra, en þá var miðgildi tekna eftir skatta, þ.e. ráðstöfunartekna ungs fólks á aldrinum 25–34 ára, 274.800 kr. á mánuði. Miðgildi ráðstöfunartekna næsta aldurshóps, 35–44 ára, var 306.000 kr. Við reiknum náttúrlega með að eitthvað hafi þessar tölur þokast upp á við, þótt þetta séu tölur frá því í fyrra. Það var bent á það í umsögn Alþýðusambandsins á sínum tíma þetta úrræði myndi ekki duga þeim heimilum sem væru með tekjur undir 600.000 kr. á mánuði til að safna sér fyrir útborgun í fyrstu fasteign. Hefði heimilið 700.000 kr. í samanlagðar mánaðartekjur tæki um átta ár að safna fyrir 20% útborgun í húsnæði sem kostaði 20 millj. kr. Ef safna ætti fyrir útborgun í 28 millj. kr. íbúð tæki það 11 ár. Það er öllum ljóst að á höfuðborgarsvæðinu eru engar íbúðir á 20 millj. kr. og varla neinar á 28 millj. kr. Að sjálfsögðu var eðlileg ábending að þetta fyrirkomulag dygði ekki til.

Stóra málið í þessu er að við höfum sagt, eða ég hef sagt það og Vinstri hreyfingin – grænt framboð, að þetta frumvarp feli í sér ívilnanir og lagfæringar á því kerfi sem þegar hefur verið samþykkt af meiri hlutanum á þingi til að greiða fyrir málinu í gegnum þingið. Við getum þó ekki látið hjá líða að minna á að kerfið sem er verið að lagfæra hér, og þarf að lagfæra meira miðað við þær athugasemdir sem komu fram í ræðu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur og þarf að taka til skoðunar, var hins vegar ekki samþykkt í sátt, fyrst og fremst vegna þess hversu mismunandi það kemur sér fyrir ólíka tekjuhópa. Það er fjarri þeim markmiðum að stuðla að auknum jöfnuði í samfélaginu. Sem sérstakt úrræði til að styðja ungt fólk til kaupa á fyrstu fasteign má draga stórlega í efa að þetta fyrirkomulag dugi nokkrum.