146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð o.fl.

553. mál
[17:23]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið við fyrirspurninni. Það kom hins vegar ekki nægilega skýrt fram hvort þingmaðurinn væri sammála því sem komið hefur ítrekað fram, að meginþorri þeirra fjármuna sem farið hafa í greiðslu vaxtabóta hefur farið til tekjuhærri fjölskyldna. Í ljósi þess að í þeim lögum er ákveðið aldurshámark um nýtingu á séreignarsparnaði og í ljósi þeirra upplýsinga sem fram komu um kynslóðareikningana, er yngra fólkið líklegra til að vera með lægri tekjur og ætti að vera sá hópur sem við beindum skattalegum stuðningi að frá hinu opinbera til frekar en að eldri og miðaldra fólki, eins og við höfum verið að gera í gegnum vaxtabótakerfið þar sem við höfum greitt út mikla fjármuni.

Að lokum. Ég veit að þingmaðurinn þekkir mjög vel til menntakerfisins eftir að hafa gegnt embætti menntamálaráðherra. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því hvaða áhrif það muni hafa á getu fólks til að eignast eigið húsnæði að við sjáum núna kynslóðir koma inn á húsnæðismarkaðinn sem eru með miklu hærri námslán en við höfum áður séð? Það tengist ekki síst gífurlegri aukningu á lánveitingum vegna skólagjalda hér innan lands. Menn hafa rætt það sífellt meira, t.d. í Bandaríkjunum. Það var risakosningamál í aðdraganda kosninganna þar þegar forsetaframbjóðandinn Bernie Sanders viðraði þessi sjónarmið. En bandaríski seðlabankinn hefur alla vega reiknað að það geti dregið hlutfallslega úr fjölda þeirra sem eignast húsnæði um einhver prósentustig eftir því sem þeir skulda meira í námslán. Það væri mjög áhugavert að heyra frá þingmanninum hvort hún hafi eitthvað velt þessu fyrir sér.