146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð o.fl.

553. mál
[17:27]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hefur reifað mörg af þeim atriðum sem ég ætlaði að koma aðeins inn á í umræðum um þetta mál. Ég ætla engu að síður að nota tækifærið og bæta þar aðeins við. Ég vil fyrst segja að þetta er nokkuð sérstakt frumvarp. Hér kemur fram bandormur fluttur af þingmönnum á síðustu dögum þinghaldsins, svona leiðréttinga-bjarga-í-horn bandormur gagnvart tveimur algerlega óskyldum lagaákvæðum. Annars vegar lögum um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð sem eiga að koma til framkvæmda 1. júlí nk. og hins vegar á lögum um opinber fjármál. Þetta er sem sagt nokkuð sérstakur kokteill.

Vegna orðaskipta hv. framsögumanns og hv. þm. Eyglóar Harðardóttur um það hvort menn ættu að taka til betri skoðunar, þó að nokkuð sé um liðið, stöðu þeirra sem eiga um sárt að binda og fóru illa út úr erfiðleikaárunum eftir hrun, t.d. í þessu samhengi að skoða hvort þeir sem misstu íbúð á þeim tíma en vilja reyna íbúðarkaup aftur eða eignast íbúð aftur eigi að fá undanþágu og flokkast sem fyrstuíbúðarkaupendur og eigi rétt á svona stuðningi, finnst mér það koma mjög vel til greina. Þetta voru auðvitað ekki venjulegar aðstæður. Í sjálfu sér væri ekkert að því að núllstilla að því leyti til, að horfa fram hjá því þótt menn hafi átt íbúð sem þeir hafi svo misst á þessum tíma.

En ég ætla þá að leyfa mér að minna á annan hóp í leiðinni sem væri alveg gráupplagt að þetta velviljaða fólk, fyrrverandi stjórnarsystkini í fráfarandi ríkisstjórn, tækju upp þráðinn með. Það er lánsveðshópurinn sem enn liggur óbættur hjá garði. Ég hef reynt að minna á hann og gerði allt síðasta kjörtímabil og enn nú, með t.d. fyrirspurn til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra en því miður svaraði hann því nánast afdráttarlaust að það stæði ekki til að gera neitt fyrir þann hóp. Þar er nefnilega enn fólk sem er að berjast við að halda sínu húsnæði. Sumt af því hefur misst það, annað er enn að berjast við að halda sínu húsnæði og halda sínum lánum í skilum þannig að ekki sé gengið að veðum aðstandenda. Og þar er enn um að ræða fólk sem er yfirveðsett eða um 100% veðsett jafnvel þrátt fyrir umtalsverða hækkun fasteignaverðs á undanförnum misserum. Þar væri tilvalið fyrir fólk sem vill leita réttlætisins í þessum efnum að bera niður. Ekki skal standa á mér að leggja því lið.

Það lá fyrir eins og kunnugt er samkomulag milli ríkisvaldsins og lífeyrissjóða á öndverðu ári 2013 um aðgerðir þar sem lífeyrissjóðirnir ætluðu að taka þátt í kostnaðinum, að vísu ekki mikinn en þó samt þannig að um munaði, en með það samkomulag var hins vegar aldrei neitt gert allt síðasta kjörtímabil og virðist ekki standa til að gera það heldur núna.

Svo vil ég segja um þetta frumvarp að það er auðvitað ákveðið afsprengi aðgerðanna miklu sem menn kölluðu svo, heimsmetin, stundum var talað um móður allra kosningaloforða, þessar víðtæku ráðstafanir sem þáverandi ríkisstjórn gerði mikið með og hélt tignarlega blaðamannafundi út af. Fyrir kosningarnar 2013 áttu þetta reyndar að verða 350 milljarða afskriftir á skuldum heimilanna á kostnað hrægamma, en endaði í u.þ.b. 72 milljörðum úr ríkissjóði og svo þessu séreignarsparnaðarhliðarafkvæmi sem var náttúrlega að einhverju leyti til að þóknast Sjálfstæðisflokknum í þeim kaupskap.

Ég hef allan tímann átt óskaplega erfitt með þetta mál. Það hefur farið alveg ofboðslega í mig að Alþingi Íslendinga skuli samþykkja andfélagslega löggjöf af þessu tagi. Ég var því að vona, vegna þess að þessu var lokað þannig á síðasta kjörtímabili að það tæki ekki gildi fyrr en 1. júlí, að ný ríkisstjórn myndi nota tímann til að endurskoða þetta. Það hefði hún svo sannarlega gert ef ekki hefðu verið sömu hægri haukarnir í henni áfram og voru í þeirri síðustu. Ég segi fyrir mitt leyti að ef ég hefði haft áhrif ríkisstjórnarmegin borðsins hefði ég bent á þetta mál sem eitt af því allra fyrsta sem ný ríkisstjórn ætti að setjast yfir og endurskoða og breyta. Til þess að hverfa frá því að styðja ungt fólk til fyrstu íbúðarkaupa? Nei. Til þess að gera það á sómasamlegan hátt. Gera það þannig að lágmarksjafnræði þegnanna væri virt. Því hér er sá ótrúlegi gjörningur á ferð að stuðningur beint úr ríkissjóði og frá sveitarfélögunum við fólk af almennum skatttekjum ríkis og sveitarfélaga er þeim mun meiri sem fólk hefur hærri tekjur. Þetta er eins og tekjuskatturinn væri öfugur. Það má jafna þessu við það. Að hæsta prósentan væri á lægstu tekjunum, svona 40% skattprósenta á fyrstu 200–300 þúsundköllunum, svo færi hún lækkandi niður í 30%, 20 og 15 og 10%. Það kemur þannig út. Stundum er talað um prógressífa, hlutlausa og regressífa nálgun í skattamálum af þessu tagi. Þetta er sem sagt andstæða prógressífrar nálgunar. Ótrúlegur gjörningur. Í þetta er verið að setja væntanlega einhverja allmarga tugi ef ekki hundrað milljarða króna af samtímaskatttekjum og væntum framtíðarskatttekjum ríkis og sveitarfélaga sem ella væru ef séreignarsparnaður, óskattaður, greiddist inn með venjulegum hætti og kæmi svo út sem andlag skattlagningar síðar.

Þá má spyrja: Gott og vel, ef menn eru tilbúnir til að setja mikla fjármuni, tugi milljarða á tugi milljarða ofan, frá ríkissjóði og sveitarfélögum, í stuðning við fólk til fyrstu íbúðarkaupa, af hverju er það þá ekki gert, með almennum hætti? Að lágmarki þannig að allir, óháð tekjum, fengju sömu fjárhæð, en ekki tekjutengja þetta öfugt. Það er alveg ævintýraleg niðurstaða. Mér finnst ástæða til að rifja það upp, herra forseti. Það á ekki að falla í þagnargildi. Svona ævintýralega var frá þessu gengið.

Auðvitað bætir ekki úr skák að á sama tíma er verið að gera vaxtabótakerfið að nánast engu. Ég kannast ekki við þau vísindi að vaxtabótakerfið undanfarin ár hafi aðallega verið stuðningur við tekjuhátt fólk. Ég held að það sé bara akkúrat öfugt. Ég man ekki betur en að strax eftir hrunið hafi vaxtabótakerfinu og útfærslu þess verið breytt þannig að stuðningurinn væri í meira mæli tengdur við lægstu laun. Hann var aukinn þannig. Skerðingin var síðan á meðal- og hærri tekjur, og þeir fjármunir fluttir inn í aukinn stuðning við þá tekjulægstu. En vaxtabótakerfið er auðvitað að verða að engu. Í núverandi ríkisfjármálaáætlun er boðað að mörkin séu fryst út tímann, sem aftur þýðir að sjálfsögðu að tekju- og eignarskerðingarákvæði gildandi laga munu halda áfram að minnka greiðslur vaxtabóta. Er það ekki bara allt í lagi? segja sjálfsagt einhverjir. Eru ekki vaxtabætur vondar? Hvetja þær ekki til að menn skuldsetji sig? Ja, snýst þetta ekki aðallega um að reyna að mæta því ófremdarástandi sem er í húsnæðismálum og alveg sérstaklega hjá tekjulægra fólki?

Ég tek að sjálfsögðu undir það með formanni mínum að menn eiga sérstaklega að beina sjónum að leigjendum og styðja við þá. Það má segja að eitt af því fáa sæmilega jákvæða sem gerst hefur í þessum efnum séu lögin um almennar íbúðir, svo langt sem þau ná. En því miður eru það aðeins 2.300 íbúðir á löngu árabili. Svo kemur í ljós að það er ekki einu sinni gert ráð fyrir nægjanlegu fjármagni til að standa við það í fjármálaáætlun, sem við tökum betur til umræðu einhvern tíma síðar í vor eða sumar, herra forseti. Einfaldlega vegna þess að nú liggja fyrir rauntölur frá árinu 2016 og þá kemur í ljós að þessir 3 milljarðar á ári duga ekki til að byggja þær 600 íbúðir sem menn höfðu reiknað með. Það vantar verulega upp á það. Þess vegna mun þurfa talsvert meiri peninga til að standa við þau áform. En það mál er mjög jákvætt.

Og hvernig er staðið að því? Með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga. Það eru reiddir fram fjármunir frá ríki og sveitarfélögum beint inn í byggingu eða kaup hinna almennu íbúða þannig að leigan geti verið sem því nemur lægri. Væri þá ekki hægt að spegla það fyrirkomulag yfir í séreignarstefnuna og segja: Við reiðum svo fram tiltekna fjárhæð beint frá ríki og sveitarfélögum sem fá tekjur af séreignarsparnaði þegar kaupin eru komin á? Eðli málsins samkvæmt væri það strax meiri stuðningur, eftir því sem íbúðin er ódýrari. Föst fjárhæð. Og almennt verður tekjulægra fólk að sætta sig við að kaupa heldur ódýrara húsnæði en stærra. Bara strax þannig væri allt annar svipur á málinu. Þannig stuðningur er vel þekktur í sumum nálægum löndum. En ég held að engum hafi dottið í hug að smíða félagslegan píramída á hvolfi og hafa aðstoð af þessu tagi frá hinu opinbera, ráðstöfun skattfjár í stuðning við fyrstu íbúðarkaupendur þannig að hún sé þeim mun meiri eftir því sem tekjur þeirra eru hærri og aðstæður betri.

Nú er staðan þannig að sennilega hefur sjaldan ef nokkru sinni verið jafn erfitt fyrir ungt og sérstaklega tekjulágt fólk að komast yfir eigin húsnæði. Það er af nokkrum ástæðum. Hér hefur verið nefnt að því miður erum við í þeim sporum eins og mörg nálæg lönd að yngri aldurshópar hafa ekki fengið hlutfallslega jafn miklar kjarabætur í kjaraþróun undanfarinna áratuga, 20–30 ára, eins og eldri aldurshópar. Við erum í sömu stöðu. Það sýna rannsóknir. Það eitt ætti að vera okkur áhyggjuefni. Við erum að tapa fólki úr landi og allt það.

Í öðru lagi er það svo að sá kostur að búa í sæmilega viðráðanlegu leiguhúsnæði fyrstu árin og leggja fyrir á meðan til að reyna að eignast sitt fyrsta húsnæði er ekki í boði hér, vegna þess að það er dýrara að leigja en að borga af meðaldýrri íbúð. Menn sitja fastir í þeim vítahring að geta ekki staðist kröfur um útborgun eða greiðslumat til eigin kaupa, sem kannski myndi þýða greiðslubyrði upp á 130–150 þús. kr. á mánuði, en ef þeir þurfa að leigja mega menn kallast heppnir ef þeir sleppa með 200 þús. kall. Þetta er svona. Og þetta frumvarp og reyndar að mínu mati líka skerðingarnar á vaxtabótakerfinu eru að auka gliðnunina í þessum efnum, milli þeirra tekjuhærri og betur settu og hinna sem eru það ekki. Hver verður og er niðurstaðan almennt núna þegar ungt fólk er að reyna að kaupa sér íbúð? Það getur það ef það á efnaða aðstandendur. Er það þannig sem við viljum hafa það? Ætlum við að kyngja því og sætta okkur við það? Að eina leiðin fyrir ungt fólk til að eignast eigið húsnæði sé ef það er svo heppið að eiga foreldra sem geta hlaupið undir bagga? Auðvitað gera menn það, þeir sem það geta og vilja. Það er allt í góðu lagi með það. En við viljum ekki hafa það þannig að hinir eigi engra kosta völ. Þetta frumvarp hjálpar ekki til í þeim efnum. Það eykur á aðstöðumuninn og er auðvitað algerlega yfirgengilegt.

Það sem á að gera er að taka áætlaðan kostnað ríkis og sveitarfélaga vegna þessa fyrirkomulags og umreikna hann yfir í u.þ.b. það sem við gætum lagt til allra fyrstu íbúðarkaupa á ári hverju næstu tíu árin og haft það fasta fjárhæð. Þá er hægt að mætast þar. Sjálfstæðismönnum er annt um séreignarstefnuna sína og allt í lagi með það. Ég hef ekkert á móti því að það sé stuðningur við þá sem vilja fara þá leið. En hann á þá að vera á einhverjum sómasamlega frambærilegum félagslegum forsendum en ekki svona.

Varðandi breytingarnar á lögum um opinber fjármál, svo maður gleymi nú ekki hinum hluta bandormsins, forseti, ég veit að flutningsmenn eru svo stoltir af þessu hugverki sínu, þessum glæsilega bandormi sem þeim tókst að semja á vordögum, ætla ég svo sem ekki að gera mikla athugasemdir. Ég ímynda mér að þetta séu réttar viðbárur sem hér eru fram færðar fyrir því að ekki komi nein ársskýrsla í ár. En það er það sem breytingin þýðir, ef ég les rétt í þetta. Þetta lítur svolítið út eins og þarna sé bara verið að færa til dagsetningar en þýðir væntanlega að það kemur aldrei nein samanburðarskýrsla í ár. Hún kemur ekki fyrr en 1. júlí að ári. Menn segja það vera vegna þess að framsetningin í gamla og nýja kerfinu sé ekki sambærileg og þar af leiðandi ekki forsendur til að birta skýrsluna. En það er ekki þar með sagt að menn hefðu ekki getað skilað einhvers konar skýrslu með að sjálfsögðu öllum fyrirvörum um að samanburður væri erfiðari við þessar tilteknu aðstæður á þessu eina ári en hann verður svo síðar meir. Mér finnst ekki alveg sjálfgefið að það þurfi að gefast algerlega upp við þetta og að engin grein verði gerð fyrir framvindu mála með þeim hætti sem síðan er ætlunin að sé ársfjórðungslega og árlega á grunni laganna um opinber fjármál.