146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð o.fl.

553. mál
[17:50]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Vissulega er það rétt að við höfum séð nokkra fjölgun fyrstuíbúðarkaupa. Við skulum fagna því varlega að við séum þar með komin í eitthvert jafnvægi í þessum efnum. Við skulum ekki gleyma uppsöfnuninni og þörfinni sem hlóðst upp og að við erum búin að hlaða upp árgöngum, heilum árgöngum, inni á heimilum foreldra sinna. Þannig að vonandi verður eitthvert tímabil þar sem hlutfall fyrstu kaupa fer talsvert hátt og kannski lækkar svo og leitar jafnvægis aftur. Það þarf eiginlega að gerast ef þessi hlutföll eiga til langs tíma að halda sér sæmilega.

Ég bakka ekki með það eina tommu að aðstöðumunurinn er að vaxa og lög af þessu tagi auka á hann af ástæðum sem ég hef þegar rökstutt.

Ég er sammála hv. þingmanni, og við erum það, að það er gríðarlega mikilvægt að menn haldi að minnsta kosti dampi hvað varðar byggingu 600 íbúða eða svo á ári hverju í almennu leiguíbúðakerfi sem er viðráðanlegt og hugsað til þess að mæta þörfum þeirra tekjulægri, tveggja tekjulægstu fimmtunganna, eins og frá því var gengið. Fyrir því eru svo ótal margar ástæður, m.a. þær sem við höfum verið hér að ræða. Það dregur aðeins aftur úr aðstöðumuninum og menn eiga þó þann kost á sæmilega viðráðanlegu leiguhúsnæði, sá hluti hópsins. Það er vegna þess að við sjáum líka ýmsa þróun hér sem ég tel að sé mjög mikilvægt að vinna móti, búa til jafnvægi á móti. Það er innrás fasteignafélaganna, gróðafélaganna, inn á íbúðaleigumarkaðinn. Þau eru að því til að ná sér þar í arð. Þeim mun mikilvægara er að sjálfseignarstofnanir og aðrir slíkir bjóði þá upp á valkosti á móti. Það er vöxtur ferðaþjónustunnar og nú má ég ekki, eftir þessa aðvörun forseta, segja það á erlendu máli sem ég ætlaði að segja — eigum við þá ekki að þýða það LoftBogB, þ.e. að íbúðir sem eru leigðar út í LoftBogB [Hlátur í þingsal.] tæma dálítið af (Forseti hringir.) íbúðum á markaðnum. Af þessum og mörgum fleiri ástæðum má ekki slá slöku við í þeim efnum.