146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

útlendingar.

544. mál
[18:05]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hér erum við auðvitað að ræða bara um örlitla breytingu sem átti ekki að þurfa á að halda, en það getur auðvitað gerst í svona mikilli vinnu og svona breiðri samstöðu þegar við breyttum heilli löggjöf á þann hátt og gert var við útlendingalögin á síðasta kjörtímabili.

Varðandi meiri breytingar sem hv. þingmaður kemur inn á er ég mjög jákvæð fyrir þeim þótt ég telji það ekki nauðsynlegt að vaða í þær strax. Ég held að mjög mikilvægt sé að fá reynslu á þessi lög, en við þurfum að vera mjög opin fyrir því að standa jafnfætis öðrum löndum við að fá hingað ungt fólk, þá sérstaklega eins og hv. þingmaður nefnir, úr fræðasamfélaginu. Ég er reiðubúin til að vinna að því að betrumbæta það með hv. þingmanni.