146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

útlendingar.

544. mál
[18:06]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur kærlega fyrir svar hennar. Ég kannast svo sem við að það getur verið nauðsynlegt að gera smávægilegar breytingar sem hefðu jafnvel getað haft miklar afleiðingar á löggjöf. Þess vegna var góð samstaða í nefndinni um að afgreiða þessa breytingu þannig að skiptinemar á aldrinum 16–18 gætu haldið áfram að koma hingað til Íslands, kynnst okkur og hugsanlega sest að hér.

Ég vonast til þess að allsherjar- og menntamálanefnd muni hvetja ráðuneytið áfram til þess að fara vel yfir, í samstarfi við velferðarráðuneytið sem farið hefur með atvinnuleyfin, hvaða tækifæri eru í þessari stöðu, hvað við getum gert til þess að laða fólk hingað til lands sem gætu eflt háskólasamfélagið og gætu svo sannarlega stutt vel við þá nýsköpunarsprota sem hér eru. Eins varðandi það sem snýr að yngra fólki, að við gætum ýtt á að það verði möguleiki á því að gera svokallaða „working holiday“-samninga. Í því sambandi hef ég þegar nefnt tvö lönd, Ástralíu og Nýja-Sjáland, og ég veit að menn voru að skoða Japan og voru komnir ansi vel áleiðis varðandi það. Það væri örugglega mjög heillandi fyrir ungt fólk að fara þangað og kynnast mjög ólíkri menningu í stórkostlegu samfélagi. Sömu mál voru rædd við Kanadamenn. Þannig að við nýtum okkur þau tækifæri sem eru bæði innan Evrópu og víðar í heiminum, til að kynnast öðrum menningarheimum, og þeir einstaklingar, borgarar þeirra landa geti þá komið hingað líka.