146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

orkuskipti.

146. mál
[19:25]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tala hér sem einn af þingmönnum sem stóðu að minnihlutaáliti í hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem gekk svo til hv. atvinnuveganefndar; það voru þeir Kolbeinn Óttarsson Proppé, Einar Brynjólfsson og ég. Skemmst er frá því að segja að þessi þingsályktunartillaga, aðgerðaáætlun um orkuskipti, er okkur öllum til framdráttar eins og hún er komin fram. Það er gott að sjá að hv. atvinnuveganefnd er einhuga um álitið og breytingatillögur. Það er eins og allir vita ekki algengt í þinginu þegar svona stendur á um stjórnartillögur af þessu tagi. Við hefðum viljað sjá fleiri og víðtækari breytingartillögur en lengra verður sennilega ekki komist í bili með samstöðu að leiðarljósi. Þó ber að þakka það sem áunnist hefur og einnig má ítreka að þessi þverpólitíska samstaða er merki um hve alvarleg loftslagsmálin eru og um leið hve þverpólitísk þau eru að mörgu leyti en þó ekki öllu.

Þakka ber þau leiðarljós sem eru ítrekuð hér í nefndaráliti um að unnið skuli að orkuskiptum með því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa. Það er lykilatriði fyrir Ísland, sem er þegar með mjög vistvæna raforkuframleiðslu og upphitun, að skoða vel alla þá möguleika sem eru til staðar um að nota æ meira af innlendu eldsneyti í allt sem gengur fyrir slíku.

Enn fremur er sagt hér:

„Að stefnt verði að því að Ísland verði framarlega í notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum á öllum sviðum …“

Þar er þetta enn endurtekið og að markvisst verði unnið að uppbyggingu nauðsynlegra innviða til að tryggja framgang orkuskipta.

Verði innlent eldsneyti til að mynda framleitt þarf að sjá til þess að almenningur hafi aðgengi að því og þær stöðvar eru meira eða minna sérhæfðar.

Aðgerðaáætlunin er til ársins 2030. Hana skal endurmeta á fimm ára fresti. Þá er vonandi að það endurmat, eins og kveðið er á um þarna, hvernig sem fer næstu árin, taki tillit til margra endurbóta og ábendinga sem komu fram í umræddu minnihlutaáliti og hafa að mörgu leyti borist inn í álit hv. atvinnuveganefndar.

Hvernig sem fram vindur er mjög brýnt að við stígum lengra fram og hraðar en fram kemur í þessari orkuskiptaáætlun eins og hún liggur fyrir. Það sem er kannski brýnast af öllu er að tryggja verður margfalt fleiri milljónir, jafnvel milljarða, til þessara mála en núverandi fjármálaáætlun eða ríkisfjármálaáætlun gerir ráð fyrir. Ég reikna með að fleiri komi inn á það hér á eftir.

Það á eftir að kostnaðarmeta fjölmarga liði sem eru í þessari áætlun og eins þá sem ekki eru þar og verkefni sem stuðla að því að við náum markmiðum okkar í krafti Parísarsamkomulagsins. Eins er víst að upphæðir eru margfalt hærri en gert er ráð fyrir á næstu árum. Þessari vinnu, þessu kostnaðarmati, verður að hraða sem allra mest.

Eins og ég sagði áðan skilaði minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar séráliti sem hefur skilað sér inn í nefndarálit hv. atvinnuveganefndar. Ég ætla að stikla á nokkrum atriðum þar sem þarfnast kannski frekari útskýringa og er að hluta til gerð grein fyrir í minnihlutaáliti okkar.

Hér er rætt um að atvinnuveganefnd telji markmið áætlunarinnar að mörgu leyti jákvæð en þó sé of skammt gengið á ýmsum sviðum. Eru þar talin upp þrjú atriði:

„Í þriðja lagi verður áætlun eins og þessi að vera unnin með hliðsjón af öðrum stefnum og áætlunum á sama sviði, þ.e. stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða og almenna stefnu stjórnvalda um nýtingu raforku.“

Þetta er orkustefnan sem oft og mörgum sinnum hefur verið auglýst eftir hér í þinginu, orkustefnan sem sárlega vantar til að hægt sé að fella svona aðgerðaáætlun, og reyndar margt annað, að einhverri heildarsýn.

Hér er ítrekað að hagrænir hvatar séu mikilvægir og ívilnanir sömuleiðis en að jafnmikilvægt sé að beita hagrænum aðgerðum á borð við beinan og öflugan fjárstuðning til verkefna. Þá er raunverulega verið að ræða um bein fjárframlög ríkisins til ýmiss konar verkefna, við skulum segja nýjabrums eða verkefna sem þarfnast verulegs fjárstuðnings til að kanna hvort þau séu lífvænleg eða ekki. Oft er ekki um að ræða fjárfesta sem vilja taka slíkt að sér þannig að það þarf að hyggja mjög vel að öflugum og beinum fjárstuðningi til verkefna. Eins er mjög brýnt að styrkja þróunarverkefni á fyrri stigum.

Þá kom fram í minnihlutaáliti okkar, og það hefur skilað sér hér inn, að samkvæmt ríkisfjármálaáætlun lækka framlög til nýsköpunar og þróunar árið 2018 en eftir það ganga einungis um 120 millj. kr. að jafnaði í fjögur ár til þessa málaflokks, til viðbótar við þau framlög sem nú eru veitt. Það er augljóst að ef við ætlum að ná langt í þessum efnum, ef við ætlum að tryggja t.d. innlenda eldsneytisframleiðslu, þá dugar ekkert hálfkák í þessum efnum, heldur þarf mun meiri fjárstuðning og fleiri styrki í gegnum Tækniþróunarsjóð og fleiri sjóði til þessara málaflokka.

Enn fremur er rætt hér um að byggja þurfi upp innviði. Talað er um rafhleðslustöðvar, metanstöðvar, vetnisstöðvar, raftengingar, bæði á flugvöllum og í höfnum. Þá er mikilvægt að muna að metan á Íslandi, sem er framleitt úr lífrænum úrgangi eða tappað af úrgangshaugum, er ekki það sem skiptir mestu máli í metanvæðingu svo langt sem hún nær, heldur metan sem er framleitt beinlínis úr koltvísýringi með vetni, t.d. úr útblæstri jarðhitavirkjana, jafnvel orkufreks iðnaðar — það er hægt að framleiða mikið magn metans á þann hátt. Þess vegna getur metan skipt verulegu máli þegar kemur að innlendum eldsneytisgjöfum.

Vetni sem er búið til með rafgreiningu, þ.e. bara með því að kljúfa vatn með rafstraumi, er líka verulega mikilvægt vegna þess að komið hefur í ljós að t.d. bílaframleiðendur, bæði venjulegra bíla og stærri bifreiða, eru farnir að hyggja aftur að vetnisvæðingu eftir nokkurt hlé. Það gerist t.d. sem svo að Toyota í Japan leggur mikla áherslu á vetnisknúinn fólksbíl. Þannig að vetni mun líka skipta verulegu máli í innlendri eldsneytisframleiðslu. Leggja ber sérstaka áherslu á það.

Það kom enn fremur fram í minnihlutaáliti okkar að nefndin, og það kemur hér fram hjá atvinnuveganefnd, telur brýnt að tengja gjaldtöku af eldsneyti við mælda losun gróðurhúsalofttegunda en ekki eingöngu að fella niður vöru- og kolefnisgjöld af eldsneyti af því einu að þau eru ekki af jarðefnauppruna. Það er sem sagt réttara að leggja á gjöld í hlutfalli við mælda losun. Ástæðan er einfaldlega sú að þá mætti taka upp gjaldtöku af endurnýjanlegu eldsneyti, sem ekki uppfyllir viðmiðunarmörk, til að draga úr notkun eldsneytis, sem t.d. er unnið úr korn- og pálmaolíu, en auka notkun eldsneytis úr lífrænum úrgangi og koltvísýringi. Ástæðan er einfaldlega sú að hér á landi höfum við möguleika á því að framleiða alkóhól, þ.e. metanól, úr koldíoxíði og vetni sem búið er til með rafgreiningu. Þetta gerist í verksmiðju Carbon Recycling í Svartsengi og hægt er að margefla þá metanólframleiðslu ef þessum gjaldtökumálum verður breytt til samræmis við þarfir okkar. Þá er ég að meina að „carbon recycling“, eða sú framleiðsluaðferð, geti staðið undir tugþúsundum tonna eða jafnvel meira af alkóhóli sem bæði er hægt að nota sem íblöndunarefni á bílvélar en einnig óblandað á bíla og skip.

Fram hefur komið að tækniþróun í Evrópu er komin svo langt að stórar báta- og skipavélar ganga eingöngu fyrir metanóli. Ef við getum framleitt ókjör af því, ætla ég að segja, stendur það nokkuð skýrt að við getum minnkað losun frá bæði fiskiskipaflota og ýmsum öðrum skipum margfalt hraðar með því að nota metanól á skip í stað þess að hugsa eingöngu um að skipta út dísilolíu fyrir svartolíu og minnka þannig útblásturinn. Það verður aldrei í miklum mæli, þ.e. útblásturslosunin verður aldrei nægjanlega mikil til þess að skipaútgerð á Íslandi verði í átt við það að vera umhverfisvæn.

Nefndin telur fjárveitingar, þ.e. atvinnuveganefnd, til uppbyggingar innviða fyrir rafmagnsbíla ekki vera nægar. Ástæðan fyrir því er sú að í áætlunum er aðeins gert ráð fyrir þrisvar sinnum 67 millj. kr., 67 millj. kr. á ári í þrjú ár, til uppbyggingar innviða fyrir rafmagnsbíla. En hugmyndir eru um sérstakan innviðasjóð í þessari aðgerðaáætlun og því ber að fagna. Verði það að veruleika þarf auðvitað aukið fjármagn til þessa verkefnis en ekki eingöngu rétt um 200 millj. kr. á þremur árum. Þarna eru því veruleg verkefni fram undan. Ef rafvæða á hafnir í þokkabót og jafnvel flugvelli erum við komin í enn meiri fjárþörf en fram kemur í umræddri ríkisfjármálaáætlun.

Atvinnuveganefnd telur að í tillöguna vanti skýrari umfjöllun um uppbyggingu annarra orkustöðva þar sem einkafyrirtæki halda að sér höndum, t.d. til afgreiðslu metans eða metanóls umfram íblöndunareldsneyti. Einnig þurfi að byggja upp vetnisframleiðslustöðvar því að vetnið er yfirleitt framleitt á staðnum. Þarna er enn og aftur um að ræða verkefni sem knýja á um meiri fjárveitingar til þessara verkefna en gert er ráð fyrir.

Að öllu þessu sögðu má taka undir það með nefndinni að tillagan með breytingartillögu verði samþykkt, en líka taka undir þann fyrirvara hv. þingmanna Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur og Loga Einarssonar að í fjármálaáætlun sem og á fjárlögum þurfi að tryggja að þær aðgerðir og þau markmið sem felast í aðgerðaáætlun um orkuskipti verði raungerð.

Að lokum má slá því föstu að fjármögnun er lykill að því að komast langt með endurbætta aðgerðaáætlun um orkuskipti eins og hér hefur komið fram.