146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

orkuskipti.

146. mál
[19:40]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn sem talað hafa á undan mér hafa farið ágætlega yfir nefndarálit og breytingartillögu frá hv. atvinnuveganefnd. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta hvað efnisatriðin varðar. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson fór rækilega yfir umsögn sem við í minni hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar skiluðum inn þannig að ég ætla svo sem ekki að kafa neitt djúpt eða fara í smáatriði í þessu máli. Þingskjölin tala ágætlega sínu máli. Ég verð að segja að ég er mjög ánægður með þá umsögn og þær breytingartillögur sem hv. atvinnuveganefnd leggur til á málinu. Eru þær mjög til bóta.

Þessi tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti var fyrst lögð fram fyrir nokkrum þingum síðan. Þegar við ræddum hana við fyrri umr. kom ég aðeins inn á að mér þætti skorta á að núverandi hæstv. ríkisstjórn hefði uppfært þá tillögu almennilega. Mér fannst skorta ákveðinn metnað í tillöguna eins og hún kom frá hæstv. ráðherra. Þar er ýmislegt sem hægt er að benda á í löngu máli, sem ég ætla nú ekki að gera. En eins og komið hefur verið inn á eru markmið áætlunarinnar að sjálfsögðu jákvæð. Það er ekki hægt að setja sig upp á móti því að þeim verði náð. En þá verður hugur að fylgja máli. Mér þótti upphaflega þingsályktunartillagan frá hæstv. ráðherra ekki endilega gefa til kynna að þessi mál væru tekin nægilega alvarlega.

Öll skref sem stigin eru í átt til orkuskipta í samgöngum eru að sjálfsögðu góð. En eins og aðeins hefur verið komið inn á skortir á mælanleg markmið í þingsályktunartillögunni; hve mikið einstökum aðgerðum er ætlað að draga úr útblæstri og stuðla að því að Ísland geti uppfyllt markmið sín samkvæmt Parísarsamkomulaginu. Inn á það hefur verið komið og allt í þá veru er til þess fallið að bæta málið enn frekar. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson kom hér inn á fjármunina. Það er kannski upphaf og endir alls, því miður, peningarnir eru það gjarnan, en sérstaklega í þessum efnum. Ég hef oft velt því fyrir mér hvað ráðamenn, bæði núverandi ríkisstjórnar og fyrri ríkisstjórna, hafi meint með sínum fögru orðum um að stíga risastór skref í umhverfismálum, í loftslagsmálum, þegar ég hef síðan farið yfir fjárlög, yfir útgjöld ríkissjóðs, og ekki endilega séð þá fjármuni þar sem nauðsynlegt er að fylgi, ætli fólk sér að fara í alvöruaðgerðir. Því er þannig háttað með þetta mál. Ef maður les sig í gegnum þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun um orkuskipti annars vegar og fjármálaáætlun til fimm ára hins vegar er ekki endilega mikill samhljómur þar á milli. En guð láti gott á vita, að settir verði auknir fjármunir í þessi mál. Sjálfur hefði ég talið að taka þyrfti það saman einhvers staðar. Það er bagalegt þar sem hæstv. ríkisstjórn talar um loftslags- og umhverfismál sem eitt af sínum forgangsmálum, að ekki sjáist nákvæmlega hvað setja á í þann málaflokk. Þrátt fyrir að fjöldi ráðherra á blaðamannafundum tali um stór skref í þessum efnum finnst mér vanta að skýra betur hvernig taka eigi þessi stóru skref. Eru þessir auknu fjármunir inni í fjármunum til umhverfismála 1 milljarður? Það fé er nú fljótt að fara. Er það að finna inni í loftslagsmálum innan iðnaðarráðuneytisins eða er það að finna undir einhverjum öðrum liðum? Það er erfitt að segja til um en það er alla vega er ljóst að ekki eru tryggðir nægilega miklir fjármunir til að taka þau skref sem nauðsynleg eru í núverandi ríkisfjármálaáætlun.

Að lokum ætla ég að koma aðeins inn á það sem ég hef talað um nokkuð oft í þessari pontu, sem er samræming. Hv. atvinnuveganefnd kemur ágætlega inn á það í umsögn sinni að það er t.d. ekki endilega ljóst hvernig tryggja á aðgang að orku alls staðar þar sem því verður komið við. Það helst í hendur við þá stefnumörkun sem skort hefur og skortir því miður enn, þótt vissulega berist tíðindi frá ráðuneytum um að verið sé að vinna í þeim málum sem lúta að orkuumhverfi Íslendinga heildstætt, hvort sem það eru orkunýtingarkostir, hvort sem það er flutningskerfi raforku, uppbygging með orku hér eða þar á landinu, orkuskipti í samgöngum eða það sem hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson kom svo vel inn á áðan, sem er orkunýtingaráætlun. Hvernig ætlum við að nýta orku í samfélaginu? Stefnum við í átt að grænu samfélagi? Hvernig ættum við að stíga þau skref?

Ég mun því fylgjast mjög vel með framvindu þessa máls og frekari áætlunum og stefnum frá hæstv. ríkisstjórn. En hver og ein stefna út af fyrir sig er ágæt. Hægt er að tala um og styðja eða vilja gera breytingar á einhverju, en lykilatriðið er að allar þessar stefnur tali saman. Það þýðir ekki að vera að vinna að einum anga málsins í einu horninu og öðrum í hinu og láta þessa vinnu ekki ríma saman. Það er sú vinna sem er mikilvægast að fara í í þessum málum. Áætlun um orkuskipti verður aldrei annað en áætlun ef ekki fylgja alvöruaðgerðir með í tengslum við þá uppbyggingu sem nauðsynlegt er að fara í.