146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Ég vil þakka forseta fyrir að hafa brugðist skjótt við og sent samúðarbréf fyrir hönd þingsins vegna þessara hræðilegu atburða sem áttu sér stað í Manchester í gærkvöldi. Viðbjóðsleg árás sem beint var gegn saklausu fólki, börnum og ungmennum. Við gerum annað svo sem lítið á þessari stundu en að fordæma slíkt illvirki og vottum aðstandendum fórnarlambanna samúð og stöndum með vinum okkar Bretum nú sem endranær í baráttu þeirra fyrir að tryggja öryggi og frið í landi sínu og í heimshluta okkar.

Það var ætlun mín hér að ræða nokkur atriði um störf þingsins. En ég læt þess einungis getið nú að þjóðaröryggisráð kom saman í fyrsta sinn í gær. Alþingi hafði áður með víðtækri samstöðu samþykkt þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland þar sem horft er með heildstæðum hætti á öryggismál og þær margbreytilegu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir.

Við Íslendingar erum mjög lánsöm þjóð, að búa við friðsæld, öryggi og stöðugleika. En því miður, eins og allt of margar vinaþjóðir okkar í okkar heimshluta hafa fengið að reyna á eigin skinni, er sú staða ekki sjálfgefin. Það er atriði sem við alþingismenn þurfum ávallt að hafa í huga í störfum okkar og þegar við ræðum utanríkisstefnu okkar og hagsmuni okkar íbúa.