146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir það og væntanlega þingheimur allur og við sendum samúðarkveðjur okkar til Breta og aðstandenda þeirra sem urðu fyrir þessari ömurlegu árás. Ég ætlaði að ræða hér málefni Hússtjórnarskólans á Hallormsstað og þá sorgarsögu sem við erum að verða vitni að í dag þar sem mennta- og menningarmálaráðherra hefur tekið þá ákvörðun að framlengja ekki samning við skólann. Skólinn hefur starfað síðan 1930. Á sama tíma og verið er að leggja niður starfsemi skólans á líka að svíkja loforð um uppbyggingu menningarhúss, en fyrrverandi menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Illugi Gunnarsson, flaug í skyndi austur á Egilsstaði og undirritaði viljayfirlýsingu þar sem fjármagni var lofað á næsta ári í byggingu þess. Hvað er menning ef ekki hússtjórnarskóli, m.a.?

Margar hugmyndir hafa verið viðraðar í ráðuneytinu til að auka ásókn nemenda og breyta námsbrautarskilgreiningum til að laða að nemendur, en það hefur ekki fengið mikinn hljómgrunn í mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar sem það hefur ekki fallið undir hin formlegu, hefðbundnu bóklegu fög. Á sama tíma tölum við gjarnan um að við þurfum að auka verknám. Fulltrúar skólans hafa lagt fram ýmsar tillögur um nám, m.a. fyrir þá sem hyggja á frekara nám í matvælatengdum greinum eða framreiðslu, þá sem vilja afla sér undirbúnings fyrir nám í klæðskeraiðn eða textílhönnun, vegna þess að þar er jú sérstakt færi í dag. Nemendur hafa líka fengið þarna undirstöðu undir frekara matreiðslunám, í ferðaþjónustu, færni í þrifum á eldhúsi og framleiðslu, sem við vitum að full þörf er á í dag. Þarna er hægt að inna þessa kennslu af hendi, þarna er þekkingin til staðar. En ráðherra hefur kosið að nýta sér ekki þessa þekkingu með því að framlengja ekki samninginn.(Forseti hringir.) Það er mjög miður, virðulegi forseti.