146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir orð þeirra sem hér hafa staðið í ræðustóli um samúðarkveðjur til Breta vegna þessarar hryllilegu árásar í Manchester-borg í gærkvöldi.

Ég tek hér til máls undir liðnum störf þingsins og aldrei þessu vant ætla ég einmitt að ræða um störf þingsins. Nú eru fáir þingfundadagar eftir og hjólin eru heldur betur farin að snúast, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Núna á að leggja allt kapp á að koma í gegn sem flestum málum. Mörg mál munu ekki hljóta brautargengi og eðlilega afgreiðslu á þessu þingi vegna þess að í 48. gr. þingskapalaga er meinlegur galli sem kemur í veg fyrir að þingmál geti lifað t.d. frá þessu vori núna og fram á haust.

27 mál bíða 1. umr. samkvæmt vef Alþingis nú í morgun, 58 mál eru í nefndum, 12 mál bíða 2. umr., fjögur mál eru komin í nefnd eftir 2. umr. og sjö mál bíða 3. umr.

Það er alveg ljóst að einungis brot af þessum málum, rétt eins og á öllum öðrum þingum, mun ná fram að ganga og fá eðlilega umræðu og afgreiðslu hér í þingsal. Það er bagalegt og kemur í raun í veg fyrir að Alþingi nái að rækja sitt eftirlitshlutverk, að Alþingi nái að taka frumkvæði í málum. Það er mjög bagalegt. Við mælum hér fyrir málum aftur og aftur og aftur. Við tökum þau fyrir í nefndum aftur og aftur og aftur. Fáum sömu umsagnirnar aftur og aftur og aftur. Það er ekki að furða að almenningur hafi lítið traust og litla tiltrú á starfsháttum Alþingis þegar svona lagað er.