146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Karólína Helga Símonardóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það er kominn tími til þess að bæta stöðu barnafólks á Íslandi. Tíminn er gæði. Ef horft er til annarra Norðurlanda er sláandi að sjá það álag sem íslenskir foreldrar eru undir. Rannsóknir benda til þess að íslenskir foreldrar vinni meira en foreldrar annars staðar á Norðurlöndunum og upplifi oft streitu. Þetta vandamál kemur einnig fram í félagsfærni barna og öðrum þáttum sem tengjast uppeldi. Það er mjög algeng staða að barnafólk sé í fullri vinnu til að geta haldið uppi heimili. Foreldrar þurfa líka að sinna uppeldi, heimilisstörfum, tómstundum barnanna, læknisskoðun og öðru sem kemur til.

Við höfum lengi velt fyrir okkur hvers vegna mikill kvíði mælist meðal ungmenna á Íslandi, erfiðleikar í námi, slæm andleg líðan og önnur geðheilbrigðismál. Líklega, þótt ég sé ekki sérfræðingur í þessum málum, má tengja margt af þessu við vinnustundir foreldra, stundum sem við gætum varið til þess að styrkja börnin okkar, framtíðarfjársjóðinn. Ef við ætlum að bæta framtíð barnanna okkar, minnka daggæslu og auka fleiri gæðastundir þá þurfum við að rekja upp þann vinnumarkað sem einkennir Ísland þar sem yfirvinna og ofvinna er ofmetin.

Ég tel mig ekki vera að setja ofan í við neitt barnafólk þegar ég segi að ekkert foreldri velur það að eyða stórum meiri hluta úr degi á vinnustaðnum. Allir foreldrar væru til í að koma fyrr heim og eiga eftir krafta fyrir börnin sín. Börn þurfa samveru við foreldra sína og foreldrar þurfa að geta haft tíma til þess að sinna uppeldi.

Nú árið 2017 eigum við að taka það skref sem hefur verið rætt í áratugi á Alþingi, að stytta vinnuviku Íslendinga. Kvennalistinn sendi frá sér þingsályktunartillögu um málið árið 1993, en fyrstu tillögur í þessum efnum voru lagðar fram á Alþingi árið 1987. Við eigum að vera ófeimin við að horfa á hvernig þeim löndum sem hafa stytt vinnuviku hefur tekist að byggja upp gott umhverfi svo börn fái að vaxa og dafna í faðmi fjölskyldunnar en ekki á hlaupum í kappi við tímann.